13.5.2009 | 16:26
Jóhanna Guðrún frábær fulltrúi Íslands
Það var hrein unun á hlusta og horfa á Jóhönnu Guðrúnu flytja íslenska lagið í Moskvu í gærkvöld. Hún er glæsileg stúlka með frábæra rödd sem hún hann vel að nota. Umgjörðin var líka falleg og látlaus, en þó svo stórglæsileg. Þarna var ekki verið að fela hæfileikaskort með alls kyns glysi og glingri, eða draga athyglina að kynþokka á kostnað tónlistarinnar.
Það er líka mjög gleðilegt að Ísland skuli hafa komist í gegn um þá þjóðernissíu sem símakosningin er að stórum hluta. Það virðist sem dómnefndin vinni af fagmennsku og er það vel. Ég sendi baráttukveðjur til Moskvu og bíð spennt eftir Laugardagskvöldinu
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.5.2009 | 17:45
Ríkistjórn Samfylkingar og VG að taka við völdum.
Ég veit ekki hvort almenningur hér á landi, gerir sér grein fyrir þeim stóru tímamótum sem eru að verða hjá okkur. Við erum að hefja algjörlega nýja vegferð inn í gjörbreytt samfélag á næstu árum. Ríkistjórn jafnaðar- og vinstrimanna að taka við með áherslur á velferð og jöfnuð.
Landið á leið inn í ESB sem þýðir efnahagslegan stöðugleika til framtíðar, aukinn kaupmátt almennings, fjölbreyttara atvinnulíf um allt land, aukna áherslu á félagslegan jöfnuð og rétt allra til ákveðinna grunnréttinda.
Mér líður núna eins og ég hafi verið á reki í vélarlausu skipi á hafi úti. Nú veit ég að vélarlausa skipið er á leið í land undir góðri stjórn öflugs björgunarskips sem skipið mitt er nú loks bundið við með sterku og öruggu sleftógi. Hvílíkur léttir og gleði sem gagntekur huga minn og hjarta.
Ég er ásamt fleirum að byggja upp fyrirtæki í ferðaþjónustu á Hvammstanga. Það var ekki fyrr en eftir að minnihlutastjórn Jóhönnu tók við 1. febrúar að ég tók þá ákvörðun með sjálfri mér að okkur væri óhætt að halda áfram. Ég sá ekki neina framtíð hér á landi með áframhaldandi stjórnarsetu Íhaldsins, þar sem hagsmunir efnamanna ráða meiru en velferð almennings í landinu.
Orðuð samkeppni þýðir þegar grannt er skoðað að skortur sé á öllu og þess vegna sé svo nauðsynlegt að berjast um það sem til er. Í Alheiminum er skortur ekki til og velferð til allra er svo sannarlega möguleg. Til að ég hafi nóg er ekki nauðsynlegt að hafa af öðrum, nema síður sé. Þegar samfélag er rekið með orðið samkeppni á vörum alla daga, seint og snemma þá verður eitthvað undan að láta með tímanum. Við erum búin að prófa svoleiðis samfélag og kominn tími á breytingar.
9.5.2009 | 13:40
Horfum með bjartsýni og áræði fram á veginn !!
Ég er komin upp í kok af allri þeirri neikvæðni sem flæðir yfir þetta land. Okkur er svo nauðsynlegt að senda hvort öðru kærleika og jákvæða strauma, senda uppbyggilega orku og bjartsýni. Hugarorkan er svo sterk að hún getur lyft okkur upp og opnað fyrir flæði alsnægta alheimsins til okkar hvers og eins. Við setjum okkur markmið og hugsum um það, sendum alheiminum þau skilaboð að við viljum ná þessu markmiði. Ég hef reynt þetta á eigin skinni oftar en einu sinnu og við gjörólíkar aðstæður.
Þegar ég var ung kona, nýgift með lítil börn, gekk ég oft framhjá ákveðnu húsi og óskaði mér að ég mundi búa í húsinu. Ég eignaðist síðan þetta hús og bjó i því í 34 ár. Alheimurinn hafði hlustað.
Ég var meðhjálpari (annar tveggja) við kirkjuna á Hvammstanga í mörg ár. Eitt sinn var ég að skríða nokkra presta fyrir messu sem tengdist fundi þeirra í prófastdæminu. Presturinn okkar þá er töluvert hætti en ég. Þegar ég var að smeygja höklinum yfir höfuð hans, fór þáverandi Hólabiskup að tala um að ég ætti erfitt með þetta.
Ég svaraði að bragði. "Á þessu eru til þrjár lausnir, að fá minni prest, stærri meðhjálpara eða skammel" Biskup horfði á mig og sagði fátt. Skömmu síðar var lagt fyrir Alþingi frumvarp um breytta skipan prestakalla. Með þeim lögum urðu þær breytingar hér um slóðir að prestur sem þjónaði í Víðidagstungu í Víðidal, fluttist til okkar á Hvammstanga. Hann er talsvert minni/lægri en hinn. Aðalmeðhjálparinn hætti (lágvaxinn eldri maður) og ungur hávaxinn maður tók við af honum. Það með var búið að uppfylla tvær fyrstu óskir mínar og skammelið óþarft. Alheimurinn hafði hlustað
Nú sé ég fyrir mér nýtt manneskjulegt samfélag á Íslandi sem er hluti af Evrópu, við á landsbyggðinni munum þá njóta margskonar leiða til að byggja upp okkar nær umhverfi með sjálfbærum hætti. Atvinnu og mannlíf mun blómstra og jafnvægi mun aukast í byggð landsins. Fólkið í landinu mun njóta stöðugleika, jafnréttis, öflugrar þjónustu, góðrar menntunar og bættrar heilsu.
Okkur mun líða vel og okkar samfélag verður í framtíðinni fyrirmynd annarra samfélaga. Lýðræðið hér verður opið og skilvirkt með nýrri stjórnarskrá. Ríkiskerfið mun fara í gagngera endurskoðun og skilvirkni þar mun aukast mjög verulega.
Þetta er mín framtíðarsýn og ég hugsa um hana á hverjum degi.
Og alheimurinn hlustar eins og ávalt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.5.2009 | 21:21
Ný ríkisstjórn um næstu helgi
Þetta segir mér að nú sé búið að ná saman um mikilvægasta málið, umsóknarferli um aðild að ESB. Margt er þó annað að gera á stjórnarheimilinu og þar er líka örugglega unnið af krafti. Ég sendi öllu því góða og duglega fólki sem vinnu núna við að leggja grunninn að endurreisn samfélagsins, mínar bestu kveðjur með óskum um gott gengi á öllum sviðum
![]() |
Ný ríkisstjórn um næstu helgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Varðandi húsnæðislánin og lífeyrissjóðina, það er að lífeyrissjóðirnir tapi af því að lækka ávöxtun á tilteknu tímabili, þá er verið að tala um þann gríðarlega kúf sem myndaðist í formi vaxta og verðtryggingar á þeim tíma þegar verðbólgan hækkaði upp úr öllu valdi. Lífeyrissjóðirnir og aðrir sem lána fé, hafa þann tíma notið gríðarlegrar ávöxtunar sem ekki er til staðar í venjulegu árferði. Ef ég skil tillögur Gísla Tryggvasonar rétt er verið að tala um að skipta þessum kúf milli lántakenda og lánaveitenda.
Dæmi:
Ég hef lánað þér 1.000 krónur í X ár og er vön að fá 50 til 70 krónur í ársávöxtun. Svo fæ ég eitt árið 200 krónur á ávöxtun og þér finnst mjög erfitt og ósanngjarnt að borga 200 sem ég skil vel. Við semjum um að þú borgir 80 krónur í ávöxtun og þú ert sáttur við það. Ég slæ af 120 krónur, tapa ekki neinu þar sem ég fæ samt meira en vanalega eða 80 krónur. Ég get ekki séð að sú lækkun þurfi að skerða mínar langtímaskuldbindingar sem væntanlega eru gerðar miðað við reglulega ávöxtun 50 til 70 krónur af hverjum 1.000 á ári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.5.2009 | 19:59
Hvað tel ég vera framundan?
Þegar ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að Ísland hyggist sækja um aðild að ESB, mun sú yfirlýsing strax auka traust okkar erlendis og slaka á gjaldeyriskreppunni sem væntanlega leiðir til lækkunar vaxta og atvinnulífið mun ná að rétta aðeins við. Það sama á við um heimilin.
Samhliða umsóknarferlinu verður gripið til markvissra aðgerða til að leiðrétta með einhverjum hætti það verðbólgu og vaxtaskot sem allir hafa orðið fyrir. Talsmaður Neytenda hefur lagt fram heilstæða tillögu fyrir fjölskyldur og einstaklinga sem eiga fasteignir og þær eru nú til skoðunar hjá viðskiptaráðherra.
Næstu eitt til tvö ár verða erfið, en þá hygg ég að leiðin fari á ný að liggja uppá við og við verðum komin á gott ról sem aðilar að ESB og evru sem gjaldmiðil, eftir fáein ár.
Á Ársfundi ASÍ 2008 var eins og venja er, ályktað um þau málefni sem mest brenna á félagsmönnum aðildarfélagasambandsins. Hér má sjá þá ályktun í heild sinni, en kaflinn hér að neðan fjallar um umsókn að ESB og rökin fyrir fyrir þeirri skoðun rakin.
"Það er skoðun ASÍ að yfirlýsing um að sótt verði um aðild Íslands að ESB og upptöku evru sé eina færa leiðin. Þannig verði látið á það reyna í aðildarviðræðum hvaða samningur Íslandi standi til boða og hann lagður fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu. ASÍ telur að yfirlýsing um að stefnt verði að aðild að evrópska myntsamstarfinu (ERM II) á næstu 2 árum myndi leggja mikilvægan grunn að því að hægt yrði í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að skapa nauðsynlegan trúverðugleika fyrir meiri festu í skráningu krónunnar á næstu árum þangað til full aðild að Evrópska peningamálasamstarfinu (EMU) og upptaka evrunnar næðist."
Nokkuð hefur verið um að andstæðingar ESB hafi hnýtt í Gylfa Arnbjörnsson hér á blogginu í dag, fyrir það sem þeir kalla áróður um þessa hugmynd og ganga jafnvel svo langt að Gylfi hafi verið að túlka sína persónulegu skoðun en ekki skoðun ASÍ varðandi ESB.
Allar slíkar fullyrðingar eru kolrangar og Gylfi var einfaldlega að leggja áherslu á brýnustu og stæstu málin varðandi launafólkið og þjóðina, eins og evinlega er gert á baráttudegi launafólks.
29.4.2009 | 18:12
Auðvitað ná þau saman
Stjórnarmyndunarviðræður standa nú yfir og þar er verið að leggja megin línur til framtíðar. Mér finnst ég vera sloppin út úr dimmu og drungalegu húsi, þar sem ekki var allt með felldu og nú er ég komin á tröppur framtíðarinnar þar sem allt er að gerast. Mér er létt og ég ætla ekki aftur inn í dimma og drungalega húsið. Ég finn hvernig ný viðhorf svífa um í hugarheimum þjóðarinnar og önnur gildi eru ríkjandi. Íslenska velferðarvorið liggur í loftinu og er komið til að vera.
27.4.2009 | 22:04
Breytt Ísland
Það er að renna upp fyrir mér að við erum að fá ríkistjórn sem á eftir að gjörbreyta þessu samfélaginu okkar sem við höfum búið við undanfarna áratugi. Þessu samfélagi sem við þekkjum eða teljum okkur þekkja.
Samfélagi þar sem æ meir hefur verið hlaðið undir þá sem gátu á einhvern hátt auðgast, á kostnað þeirra sem unnu á gólfinu og voru með eins lág laun og hægt var að kreista Verkalýðshreyfinguna til að semja um.
Fiskvinnslan grét og grét og náði með því að halda grunnlaunum lágum, en pískaði svo sitt fólk áfram með einstaklingsbónus sem skapaði þar að auki spennu á mörgum vinnustöðum. Aðrir hópar voru svo verðlagðir eftir grunntöxtum fiskvinnslufólks.
SÍS og kaupfélögin blóðmjólkuðu bændur og gera enn þar sem þau hafa haldið velli. Það er von að bændur óttist ESB því verið gæti að þeir yrðu mun sjálfstæðari en þeir eru í dag og gætu farið að stunda fleira á jörðum sínum en sauðfjár og kúabúskap. Vesalings fólkið en svona er lífið.
Kvótakóngar gráta líka og vitna í hvað Norðmönnum gekk illa að semja við ESB 1994. Það verður endilega að segja þeim að nú sé komið árið 2009 og verið sé að breyta fiskveiðistefnu ESB. Það eru margir fortíðardraugar á kreiki og vilja halda í "gömlu góðu" dagana.
Nú er að setjast að völdum stjórn sem hugsar meira um fólkið en fjármagnið. Ætlaðar að skapa hér þjóðfélag velferðarsamfélag að Norrænni fyrirmynd í stað tilraunasamfélagins þar sem reynt var á flestum sviðum að apa eftir Ameríska draumnum, þar sem þeir ríku urðu ríkari og fátækir fátækari.
Svo erum við á leið inn í ESB sem tryggir okkur enn frekar að hér haldist velferðarsamfélag, með áherslu á öflug félagsleg réttindi á öllum sviðum. Breytingarnar sem nú eru að verða eru svo miklar og áhrifaríkar að slíkt er með ólíkindum. Ég hlakka til og tek glöð þátt í því ferli sem framundan er.
27.4.2009 | 09:37
Fyrsti vinnudagur eftir kosningar
Helgin er liðin og nú hefst vinnan, þessi tímamótahelgi á Íslandi þegar snúið var af þeirri braut að þeir sterkustu og ríkustu hefðu sífellt meira og meira á kostnað þeirra sem minna áttu og höfðu jafnvel ekki tækifæri eða möguleika til að taka þátt í slagnum. Frumskógurinn hefur reynst mörgum erfiður og torsóttur.
Jafnaðarstefnan fékk afgerandi brautargengi og eru þau skilaboð í fyrsta sinn mjög skýr og afgerandi. Leiðin inn í samfélag Evrópuþjóða var líka mörkuð. Næsta stóra skrefið verður að lýsa yfir að Ísland hyggist sækja um aðild að ESB, leggja formlega inn umsókn og hefja viðræður um samning milli Íslands og ESB. Þjóðin verður að vera vel upplýst um gang mála og samningurinn þarf að vera vel aðgengilegur til kynningar svo fljótt sem verða má.
Sömuleiðis þarf að kynna vel fyrir þjóðinni þær reglur sem gilda um einstaka málaflokka, svo fólk viti allan tímann hvaða möguleikar geta verið fyrir hendi. Andstaða við aðild er að miklu leiti til komin vegna þess að fólk hefur ekki upplýsingar.
Um bloggið
154 dagar til jóla
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.7.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 110689
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar