Hver hefur ekki farðið í gegnum skuldbreytingar

Það er með ólíkindum að lesa um ótta við fólks um að Ísland geti ekki staðið við ICESAVE skuldina. Ég er ekki að draga úr því að mikið þarf að borga, en hver hefur ekki farið með sínar skuldir í gegnum skuldbreytingar, fyrir heimilið eða fyrirtækið ef fólk er með rekstur.

Stóru fréttirnar núna hér heima eru meðal annars af skuldbreytingum eða þörf fyrir skuldbreytingar. Áróðursvélin klifar á því nótt sem nýtan dag að við getum ekki staðið við þetta. Ef slíkt kemur upp þá er einfaldlega beðið um skuldbreytingu. En fyrst þarf að gera samning svo hægt sé að breyta samningi.


Við verðum að vinna með umheiminum til að umheimurinn vilji vinna með okkur.

Það er og verður alltaf hægt að finna fólk hér heima og erlendis sem finnur til samkenndar með okkur og finnst að við séum órétti beitt. Ég get vel tekið undur allt mögulegt sem nú er sagt í þá veru.

Það breytir ekki þeirri staðreynd að semja þarf um skuldir okkar og það strax. Við verðum að byggja hér upp og það verður ekki gert meðan byggingarefnið fæst ekki. Við verðum að vinna með umheiminum til að umheimurinn vilji vinna með okkur.

Ég á í fórum mínum umsóknareyðublað frá Fjárhagsráði Íslands með ártalinu 1947. Afabróðir minn var að ráðast í byggingu íbúðarhúss svo heimilisfólkið gæti flutt úr gömlum torfbæ. Sækja þurfti um leyfi til að flytja allt inn. Það efni sem fékkst var hrákatimbur, asbest til að klæða með að utan og annað eftir því.

Þetta hús var um margt heilsuspillandi og lélegt.  Flutt var úr því 1974 og það síðar gefið slökkviliðinu til æfingar.

Langar okkur aftur til þessa tíma. Þið sem viljið standa í lappirnar eins og það er kallað. Vitið þið hvernig var að búa á Íslandi þá.

Fátæktin er föl hverjum sem er, en velsældin er því miður vandfundið djásn, sem okkur hefur tekist að höndla.

Hendum velsældinni ekki út um gluggann fyrir  þjóðarstolt sem ég dreg þó í efa að margir skilji í hverju er fólgið.


Spurningar til núverandi eigenda fiskveiðiheimilda.

Nýverið kom Friðrik J Arngrímsson fram í Kastljósi RUV og ræddi þar við Ólínu Þorvarðardóttir varaformann Sjávarútvegnefndar Alþingis. Meðal þess sem Friðrik sagði í umræddum þætti, var að útgerðarmenn hefðu keypt 80% til 90% þeirra veiðiheimilda sem þeir ættu í dag.

Nú vil ég spyrja núverandi útgerðarmenn um eftirfarandi:

  • Hve margir núverandi útgerðarmanna/aðila hafa keypt allar sínar veiðiheimildir og fengu ekki úthlutað heimildum í upphafi?
  • Hve margir núverandi útgerðarmanna/aðila hafa selt eitthvað af sínum veiðiheimildum sem þeim var úthlutað í upphafi?
  • Hve margir núverandi útgerðarmanna/aðila hafa keypt veiðiheimildir af  útgerðarmanni/aðila sem hélt áfram rekstri eftir söluna.?
  • Hve stórt hlutfall afviðskiptum (kaup og sala)  sem farið hafa fram árlega  milli starfandi útgerðarmanna/aðila, síðastliðin 10 ár?

Ástæður þessara spurninga eru þær að þegar Friðrik J Arngrímsson talar um kvótakaup útgerðarmanna, má skilja mál hans svo að núverandi kvótaeigendur hafi keypt nánast allan sinn kvóta og séu skuldum vafðir þess vegna. Að nú séu nær engir í greininni sem upphaflega fengu úthlutað gjafakvóta.

Vissulega hefur kvótinn gengið kaupum og sölum. Það er ekki spurningin, heldur að þau viðskipti hafa að sjálfsögðu verið að miklu leiti milli starfandi aðila. Vissulega hafa kvótasölur líka verið með þeim hætti að einstakir aðilar hafa verið að hverfa úr greininni og má þar nefna hjónaskilnaði, sölur úr dánarbúum útgerðaraðila og samstafsaðilar skilið að skiptum.

 


ICESAVE - SAMRÆÐUSTJÓRNMÁL - HALLGRÍMUR HELGASONM

Greinin hans Hallgríms Helgasonar er snjöll og fær marga til að hugsa sem er afar nauðsynlegt.

Orðaleikir geta verið skemmtilegir og vakið margskonar viðbrögð. Greinin hans Hallgríms er þeirrar gerðar að vel er hægt að túlka hana á marga vegu. Það er samt að mínu áliti ekki aðalatriðið, heldur hitt að mér finnst hann vera að fara með okkur í gegnum þann farsa sem búinn hefur verið til utanum þetta mál.

Þar hefur stjórnarandstaðan lengst af farið með leikstjórnina og það eru kannski stóru mistökin hjá ríkisstjórninni að heimila allan þennan spuna. En þar tel ég líka að munurinn liggi, í mismunandi stíl.

Samræðustjórnmál eru það sem við félagshyggjufólk leggjum áherslu á og þarna hafa átt sér stað miklar samræður. Það er líkast því að þingmenn gömlu stjórnarflokkanna, Sjálfstæðis og Framsóknarflokka hafi verið að sleppa úr áralangri innistöðu í fjósi Hrun-flokkanna og algjörlega misst sig í samræðustjórnmálum.

Á þeirri leið hafa skoðanir margar þróast og snúist, álitgjafar hafa verið kallaðir til og sitt sýnist hverjum.

Nú erum við komin á þann stað að niðurstaða verður að fást í samræðustjórnmálin og hún skal fengin með meiri samræðum, en ekki skipun frá höfðingjanum. Þar liggur kannski aðalvandinn


Höfum raunverulega ekkert val í ICESAVE málinu.

Margir eru því marki brenndir að við getum valið um það hvort við borgum ICESAVE eða ekki. Slíkur málflutningur er með öllu óábyrgur og til þess eins að rugla fólk í ríminu.

Íslenska þjóðin hefur það val að samþykkja ICESAVE samninginn eða fara inn þjóðargjaldþrot og mikla fátækt þar sem okkar sambönd erlendis munu lokast hvert af öðru sökum almenns vantrausts alþjóðasamfélagsins.

Þorvaldur Gylfason var í þættinum Sprengisandur í morgun. Hér á eftir er hluti fréttar þar sem vitnað er í málflutning ÞG:

Hafni þjóðin Icesave-frumvarpinu í þjóðaratkvæðagreiðslu sér Þorvaldur fyrir sér að Norðurlöndin dragi sig í hlé. Þá sé tvennt í stöðunni. Annað hvort dregur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sig út úr efnahagsáætlun með tilheyrandi gengishruni og óðaverðbólgu. Hinn kosturinn er sá að ný efnahagsáætlun verði lögð fram af AGS með mun lægri lánveitingum. Verði það raunin þurfi að leggjast í svo mikinn niðurskurð að nær ómögulegt verði fyrir stjórnmálastéttina að ná samkomulagi um hann.

Fögur framtíðarsýn eða hvað.


Óvitaskapur að fara aðra leið en við viljum - Friðrik J Arngrímsson.

Þessi málflutningur Friðriks J Arngrímssonar dæmir sig sjálfur og er í þeim anda sem mikið er notaður núna og þá sérstaklega af stjórnarandstæðingum. Ef þú ert ekki sammála mér þá ert þú óviti, heimsk, fáviti o....

Ef fólk virkilega heldur að svona skítkast til þeirra sem hafa aðra skoðun, beri vott um þroskaðan málflutning, þá er það misskilningur. Þarna er óttinn við valdamissi holdi klæddur og sá sem er hræddur beitir að því er virðist síður rökum, en notar innihaldslitla fullyrðingar.

Strandveiðarnar sl sumar voru góð byrjun á að opna fyrir frelsi til veiða á grunnslóð og gáfu góða vísbendingu um að það er brýn þörf á slíku. Það er mín skoðum að við Íslendingar ættum í auknum mæli að auka svokallaðar vistvænar veiðar á grunnslóðinni. Þá er ég að tala um króka og netaveiðar. Skoðum hvaða leiðir nágrannar okkar í Noregi hafa farið og hverju þær hafa skilað.

Ég er líka fylgjandi þeirri hugmynd að efna til svokallaðra vísindaveiða á miðunum hér við land, bæði grunn og djúpslóð, líkt og Rússneska Hafrannsóknastofnunin í Múrmansk gerði í Barentshafi nýverið. Með þeirri aðferð var þéttleiki fiskistofna mældur og veiðiheimildir stórauknar í framhaldinu. Þar var það fyrst og fremst þorskstofninn sem bar meiri veiðar í Barentshafinu og rökrétt að ætla að svo geti einnig verið við Ísland


mbl.is Óvitaskapur í sjávarútvegsráðuneytinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaskir markverðir af Vatnsnesinu og úr Miðfirðinum - hraðskreið kona úr Hrútafirði

Við hér norður við Húnaflóann fylgjumst sérstaklega vel með Silfurmarkvörðunum í Íslenska handboltalandsliðinu. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að þeir eiga báðir ættir að rekja til okkar hér í V Hún - Húnaþingi vestra. Björgvin Páll Gústafsson er meira að segja innfæddur, þó hann flytti burt með móður sinni ungur að árum. Föðurættin hans er þar að auki af Vatnsnesinu (eins og ég) og það er nátturlega bara tær snilld. Enda varði maðurinn 19 skot í leik í dag og sutt er síðan að hann skoraði hjá andstæðingnum yfir endilengann völlinn. Móðurættin hans er líka úr sýslunni að hluta og það bara eykur á montið.

Hreiðar L Guðmundsson, hinn Silfurmarkvörðunum, er svo ættaður úr Miðfirðinum, heimasveit Grettis sterka. Hann er ekki innfæddur Húnveningur, en það kemur ekki í veg fyrir að við brosum út í bæði þegar hann lokar íslenska markinu á ögurstundum. Mér skilst líka að hann sé frændi minn sem er auðvitað ekki leiðinlegt.

Svo er það Margrét Helga Þorsteinsdóttir borin og barnfædd Hrútfirðingur, eins og það heitir. Hún er afskaplega kraftmikil íþróttakona sem á eftir að vinna mörg afrek. Hún er á hverju stórmótinu af öðru að toppa sinn eigin árangur og vinna hina keppendurna um leið. Það er frábært og í raun einstakt að 2 af 10 toppíþróttamönunum í vali Íþróttafréttamanna skuli koma úr samfélagi þar sem einungis búa um 1200 manns.

Það er bara ekki hægt annað en að monta sig af þessu frábæra unga afreksfólki.


Að færa peninga milli landa. Launatekjur má aðeins færa inn í landið - ekki út úr landinu?

Í gær bloggaði ég um árangur ríkisstjórnarinnar á síðasta ári sem ég tel allgóðan miðað við spár og væntingar. Ekki ætla ég að draga þar neitt til baka, en við vekja athygli á máli sem kom fram á færslu frá manni að nafni Stefán Júlíusson. Ekki þekki ég manninn eða veit neitt annað um hann, en það sem hann skrifar á síðuna mína.

Að hans sögn er hann að vinna hér á landi, en fjölskyldan býr í Þýskalandi. Vandi hann er að hans sögn, sá að hann fær ekki að millifæra laun sín til fjölskyldunnar ytra, að því er virðast vegna gjaldeyrishafta.

Er það virkilega svo að fólk geti ekki fært sína daglegu neyslupeninga frá Íslandi og til annarra landa, eins og kemur fram hjá Stefáni, á meðan aðili sem vinnur erlendis getur auðveldlega flutt samskonar greiðslur inn í landið.

Þarna virðist vera um grófa mismunun að ræða á aðstæðum fólks, eftir því hvort fé til framfærslu er flutt út eða inn í landið. Sé þetta hinsvegar ekki rétt, bið ég viðkomandi yfirvöld velvirðingar.


Skoðum aðeins árangurinn á síðasta ári?

Það er alltof algengt að fólk slái því fram sem staðreynd að hér hafi ekkert áunnist á síðasta ári. Þá er verið að meina stöðuna í okkar samfélagi (ekki í ICESAVE). Umræðan um það stóra mál hefur verulega kæft alla almenna umræðu um ástand og horfur hér innanlands.

Ég vil því taka hér fyrir nokkra þætti sem skipta okkur öll verulegu máli og eru um leið liður í því að samfélagið komist aftur í gang og rúlli eðlilega eins og sagt er.

Staðan um áramót

  • Gengi krónunnar: Var stöðugt og hafði ekki verið hærra í 5 mánuði.
  • Vextir: Höfðu lækkað umtalsvert og ekki verði lægri í 4 ár.
  • Verðbólgan: Ekki verið lægri í tæp tvö ár
  • Skuldatryggingarálag: Lækkað um helming á árinu.
  • Atvinnuleysi: Minna en spáð var.
  • Samdráttur: Minni en spáð var.
  • Skuldir hins opinbera: Mun minni en spáð var.
  • Halli Ríkissjóðs: Lækkaði úr 218 milljörðum í 99 milljarða á 2 árum.

Svo kom 5. janúar 2010.


Kalda gusan frá AGS

Eru þessi skilaboð AGS ekki bara hinn kaldi sannleikur í málinu sem að okkur snýr. Heitir þetta ekki að hafa hlutina upp á borðinu og hafa þá gagnsæja. Raunveruleikinn er stundum kaldur, en við skulum líka vona að úr rætist sem fyrst og raunveruleikinn verði smá volgur.


mbl.is Íslendingar fá gusu frá AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Höfundur

Hólmfríður Bjarnadóttir
Hólmfríður Bjarnadóttir

Höfðagötu 1 531 Hvamms-tanga.

Fædd 1945 og er Húnvetningur í báðar ættir. Fædd steingeit og mikið fyrir að príla eins og geitum er tamt. Á ekki lengur ferðaþjónustuna, en aðrir tóku við keflinu í vor. Í haust fékk fyrirtæki þeirra, Selasigling ehf viðurkennigu frá Ferðamannastofu sem frumlegasta nýjungin í ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Ég er stolt og glöð með þessa viðurkenningu, fyrir hönd okkar hjóna og þeirra sem héldu frumkvöðlastafinu áfram. Er núna að hanna og prjóna pils úr lettlopa sem á að selja ferðamönnum. Ég er gift Sævari Jónatanssyni, við eigum 4 börn og 8 barnabörn.

164 dagar til jóla

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Grill 036
  • Grill 035
  • Grill 035
  • Kosningar 2033
  • Grill 001

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband