Vonandi er að rofa til í ICESAVE málinu.

Jóhanna Sigurðardóttir flutti okkur afskaplega góðar fréttir núna um tíuleitið. Hún segist bjartsýn og það segir hún örugglega ekki nema að virkilega sé að rofa til í málinu. Ég vil bara senda öllum sem vinna að þessu vandasama máli, jákvæða og hlýja strauma með von um farsæla niðurstöðu


Friðrik Arngrímsson og Ólína Þorvarðardóttir tókust á í Kastljósinu í kvöld

Það er greinilegt að LÍÚ ætlar að láta sverfa til stáls og vel það. Fulltrúar frá þeim hafa ekki mætt á fundi nefndar Alþingis sem fjallar um málið, frá því í nóvember. Friðrik rangtúlkar að mínu áliti fyrningarleiðina að því leiti að útgerðarmönnum sé ekki heimilt að veiða meira en þeim verður úthlutað eftir að fyrning hefst. Það er auðvitað kolrangt, því þær veiðiheimildir sem þeir hafa skilað, verða boðnar á almennum markaði, það er að segja afnotarétturinn til einhvers tíma sem stjórnvöld ákveða. Þá verður innheimt gjald sem skapar tekjur fyrir okkar sameiginlega sjóð.

Ólína skýrði sjónarmið stjórnvalda vel, miðað við þann tíma sem var til umráða. Ég var afar stolt af henni þegar hún sagði Friðrik að stjórnvöld myndu einfaldlega taka kvótann af þeim og úthluta honum til annarra, ef þeir sigldu í land. Það er ekki oft sem LÍÚ er svarað af einurð og festu, en nú eru breyttir tímar og því ber að fagna.


Hvar erum við stödd - Hvert stefnum við????

Samkvæmt daglegu fréttabréfi CMA nemur skuldatryggingaálag Íslands nú 544 punktum og hækkaði það um rúm 7% frá því í gærdag. Álagið hefur legið í kringum 500 punkta frá því að forseti Íslands ákvað að vísa Icesave frumvarpinu til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Samhliða hækkun álagsins hafa líkurnar á þjóðargjaldþroti Íslands aukist að sama skapi. Standa þær nú í rúmlega 31%. Til samanburðar má nefna að skuldatryggingaálag Íraks stendur nú í 475 punktum.

 Svo mörg voru þau orð og dæmi nú hver fyrir sig.

Þroskaferill Bjarna og Sigmundar. - Grein Jóhanns Haukssonar í DV í dag, kafli 3

Niðurlag greinar Jóhanns hljóðar svo: 

Uppreisnarunglingurinn
Það verður því skammgóður vermir og afar tvíbent fyrir stjórnarandstöðuflokkana að reka harðan áróður gegn samþykkt Icesave-frumvarpsins í þjóðaratkvæðagreiðslunni í lok febrúar eða byrjun mars. Ríkisstjórnin þarf ekkert að gera annað en að sjá til þess að þjóðaratkvæðagreiðslan verði haldin.

Og situr svo áfram. Bretar og Hollendingar þurfa ekkert að gera. Ekki neitt! Þeir hafa öll spil á hendi. Þeir þurfa ekki einu sinni að gjaldfella lán og setja í innheimtu. Þeir þurfa ekkert að höfða mál. Bara bíða. Bíða eftir því að íslenska þjóðin átti sig á því að ballið er búið og komið að skuldadögum.

Íslendingar eru eins og hálfstálpaðir unglingar sem rísa gegn valdi foreldra sinna. Þeir neita að hlýða. Þeir skella hurðum. Þeir fara helst gegn ráðleggingum og boðum þeirra. Einmitt vegna þess að þeir finna fyrir valdinu.

Umheimurinn veit að um síðir kemur íslenski unglingurinn aftur skríðandi og biður um mat. Það er liður í þroskaferlinu. Þroskaferli Bjarna og Sigmundar.

Finnst rétt að lesendur blogg.mbl.is fái tækifæri til að lesa skrif JH.


Þroskaferill Bjarna og Sigmundar. - Grein Jóhanns Haukssonar í DV í dag, kafli 2

Síðan skrifar Jóhann Hauksson:

Botnlausar mótsagnir
Ef þeir eru á móti vaxtakjörunum í Icesave-samningnum gat það varla verið ástæða til að fresta endurreisn þjóðfélagsins og stofna til aukalegs kostnaðar með óvissu um Icesave-uppgjörið.

Ekkert í Icesave-samningnum segir að Íslendingar geti ekki greitt upp lán Breta og Hollendinga bjóðist önnur lán á lægri vöxtum þótt síðar verði. Enginn bannar Íslendingum heldur að greiða Icesave-lánin hraðar upp ef færi gefst. Að þessu leyti sýnir stjórnarandstaðan þjóð sinni villuljós og breiðir út sannlíki en ekki sannleika um málið.
 

Í þriðja lagi hafa stjórnarandstæðingar snúið svo harkalega við blaðinu eftir að forsetinn skaut Icesave-málinu til þjóðarinnar, að þeir mega ekki til þess hugsa að ríkisstjórnin fari frá. Enginn hefur lýst vantrausti á ríkisstjórnina. Enginn hefur beðið hana að fara frá.

Enda fer hún hófstillt að lögum og undirbýr þjóðaratkvæðagreiðslu. Eins og vera ber. Það hefur hins vegar komið framsóknaríhaldinu í bobba. Þeir munu bera ábyrgð á því að Icesave-samningurinn verður felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta heldur vöku fyrir Bjarna og skynsömum framsóknarmönnum, ekki síst eftir að þeir lýstu því yfir að þjóðin ætti að standa við skuldbindingar sínar.
 

Í fjórða lagi breiða lögfræðingarnir með flokksskírteinin út boðskap sinn gegn Icesave í kastljósum þessa lands. Þeir búa til forsendur um kerfishrun íslensku bankanna og hlaða endalausum Moggagreinum ofan á slíkar staðleysur. Það gæti tekið mörg ár að telja umheiminn á að samþykkja einhverjar huglægar forsendur íslenskra lögfræðinga sem eiga sér enga fótfestu í innstæðuregluverki ESB.

Munum, að allir bankar áttu fyrir innstæðum sparifjáreigenda og hafa þegar greitt þær, nema Landsbankinn. – Er það kallað kerfishrun? Hægt og bítandi sverfur að þegar sneiðist um lánamöguleika erlendis til fjárfestinga, rekstrar fyrirtækja og neyslu, fjármögnunar ríkissjóðs og til að efla stöðu krónunnar.

Halda verður hæfilegum snúningi á litla íslenska hagkerfinu ef ekki á að fara illa. Krónan gæti fallið enn og kaupmáttur rýrnað. Spjótin munu beinast að stjórnarandstöðunni þegar atvinnuleysið eykst, rekstur fyrirtækja kemst í þrot og raddirnar innan heimilanna um úrræði og endurreisn verða háværari.

Finnst rétt að lesendur blogg.mbl.is fái tækifæri til að lesa skrif JH.


Þroskaferill Bjarna og Sigmundar. - Grein Jóhanns Haukssonar í DV í dag, kafli 1

Hér fer á eftir fyrsti hlutinn af grein Jóhanns Haukssonar.

Stjórnarandstaðan tapar stríðinu um Icesave.

Eftir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti hafði synjað Icesave-lögunum staðfestingar flýtti stjórnarandstaðan sér að boða þjóðinni að auðvitað stæðu Íslendingar við sínar skuldbindingar.
 

Ekki verður hægt að gera það á grundvelli laganna og fyrirvaranna frá síðastliðnu hausti eins og forsetinn reyndi að gefa til kynna, því ríkisábyrgðin gildir einfaldlega ekki um þau lög. Fjármálaráðherrann hefur ekki undirritað neina heimild á grundvelli neinna laga um ríkisábyrgð.
 

Í öðru lagi flýtti stjórnarandstaðan sér að boða þjóðinni, að um leið og hún væri samþykk því að standa við skuldbindingar sínar við Hollendinga og Breta yrði það að gerast á skilmálum stjórnarandstöðunnar og í samræmi við útfærslu sem Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins væru samþykkir. „Enga landráðasamninga undir oki gömlu nýlenduveldanna,“ segja þeir og berja sér á brjóst.

Finnst rétt að lesendur blogg.mbl.is fái tækifæri til að lesa skrif JH.


Netkannanir og netundirskriftir.

Netkannanir og netundirskriftir hljóta alltaf að vera háðar því að net sé aðgengilegt öllum, svo slíkt sé fullmarktækt. Þegar ég hlustaði á stjórnsýslufræðinginn Andrés lýsa sínum skoðunum og áliti há Agli í Silfrinu á sunnudaginn, sá ég fyrir mér Intdefens hópnum á Bessastöðum nú nýlega í rauðum mekki frá neyðarblysum. Karlar á góðum aldri, í góðum stöðum og þokkalegum efnum með ábúðarmikið yfirbragð. Talandi í ákveðnum hagfræðigír sem vekur minnimáttarkennd hjá fólki með litla menntun, lág laun og takmarkaðann tíma til að velta fyrir sér hagtölum mánaðarinns.

Þetta mat passar svo vel við umsagnir á bloggsíðum þar sem vísað er í vanþekkingu þess sem skrifað er til. Gjarnan vitnað í lærðar greinar og ekki verra að þær séu á ensku svo sá/sú vankunnandi dragi sig inn í skelina og játi sig sigraða/nn.


Hörmungarnar á Haítí og rústabjörgunarsveitin okkar

Skelfilegt er að heyra og sjá fréttir frá náttúruhamförunum á Haítí. Það kemur ætíð upp að fólk vilji rétta hjálparhönd þegar svona gerist. Ég er því afar þakklát fyrir að við skulum eiga svona vel þjálfaða rústabjörgunarsveit sem er tilbúin til að fara og leggja lið við svona aðstæður. Snögg viðbrögð hér heima við hjálparbeiðninni  frá Haítí eru líka þakkarverð. Mér leið líka aðeins betur þegar ég var búin að hringja í hjálparsíma Rauðakrossins í dag. Bið þess að hjálpin frá okkur komi að sem mestu gagni við þessar skelfilegu aðstæður


mbl.is Sáu mikla eyðileggingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við siglum bara í land. Friðrik Arngrímsson með grátstafinn í kverkunum.

Þetta eru skip sem bankarnir eiga (bæði hér og erlendis) og við þjóðin, eigum fiskveiðiréttinn. Þá er bara að skipta um kennitölur og reikningsnúmer fyrir innkomu og málið er dautt. Hef sáralitlar áhyggjur af fjárhagsstöðu núverandi svokallaðra eigenda. Er ekki reikningar með einhverjum “smáaurum” einhvers staðar á góðum stað. Drífið bara í þessu, við bíðum spennt og tökum við endanum á bryggjunni.


Umfjöllun Stöðvar 2 á Skaftafellsýslur til fyrirmyndar, kærar þakkir.

Mér finnst full ástæða til að þakka Stöð2 og Kristjáni Má Unnarssyni sérstaklega vel fyrir frábæra fréttaseríu úr sveitum á austanverðu suðurlandi. Innslögin eru stutt og vel fram sett, í góðu samhengi og segja vel frá því sem þarna er að gerast. Fólki er að fækka og það meira en í sjálfum Skaftáreldunum, en íbúarnir eru samt ákveðnir í að finna leiðir til að snúa þeirri þróun við. Umræða um málin er að mínu álit afar hófstillt og raunhæf. Vonandi verða fleiri svæði tekin fyrir, þetta er fræðandi og uppbyggilegt fréttaefni og að mínu áliti nýr vinkill. Þarna er ekki bara komið þegar einhver skaði er skeður og einblínt á hann, heldur farið yfir sviðið með heimamönnum á vandaðan og raunhæfan máta


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Höfundur

Hólmfríður Bjarnadóttir
Hólmfríður Bjarnadóttir

Höfðagötu 1 531 Hvamms-tanga.

Fædd 1945 og er Húnvetningur í báðar ættir. Fædd steingeit og mikið fyrir að príla eins og geitum er tamt. Á ekki lengur ferðaþjónustuna, en aðrir tóku við keflinu í vor. Í haust fékk fyrirtæki þeirra, Selasigling ehf viðurkennigu frá Ferðamannastofu sem frumlegasta nýjungin í ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Ég er stolt og glöð með þessa viðurkenningu, fyrir hönd okkar hjóna og þeirra sem héldu frumkvöðlastafinu áfram. Er núna að hanna og prjóna pils úr lettlopa sem á að selja ferðamönnum. Ég er gift Sævari Jónatanssyni, við eigum 4 börn og 8 barnabörn.

163 dagar til jóla

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Grill 036
  • Grill 035
  • Grill 035
  • Kosningar 2033
  • Grill 001

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband