Færsluflokkur: Dægurmál

Nýtt ár

Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla þið öll sem kíkið inn á síðuna mína. Fyrsta barnið var stúlka og það segir mér að þetta verði ár kvenna í heiminum. Við erum reyndar nýbúin að sjá að baki þeirri stórkostlegu konu Bersir Butto sem er afar sorglegt fyrir allan heiminn. Hún var af þeim sem gerst þekkti til, talin vera helsta lýðræðisvon Pakistana. Hvernig spilast úr málum þar er eftir að koma í ljós og vonandi færist þjóðfélagið til meira frjálsræðis og lýðræðis. Annað fjölmennt ríki, Bandaríkin munu velja sér forseta næsta haust. Mínar vonir standa til þessa að Hillary Clinton ná að komast í þann forsetastól. Heiminn þyrstir eftir nýjum vindum að vestan, þar sem látið verður af skefjalausum áróðri fyrir stríði. Hryðjuverkaógnin hefur verið útblásin af Haukunum svo hægt væri að framleiða meiri og meiri vopn.  Við þurfum svo mikið af nýrri hugsun inn í alþjóðasamfélagið þar sem umburðarlyndi og fræðsla taka við af fordómum og dómhörku


Áfangasigur í Balí

Niðurstaða fundarins í Balí er afar athyglisverð fyrir þær sakir að nú er forystuþjóð þeirra sem hafa viljað fara sínar eigin leiðir, Bandaríkin loks komin að borðinu og skrifaði undir niðurstöðu fundarins. Friðarverðlaun Nóbels komu líka til Bandríkjamannsins Al Gor sem hefur verið óþreytandi að upplýsa sína meðbræður um mikilvægis umhverfismála. Viðhorfsbreyting í svona umfangsmiklum málaflokki tekur gríðarlegan tíma og er afar umfangs mikil. Ég hef séð ummæli í fjölmiðlum, þess efnis að umhverfisvernd væri ekki friðarmál. Þar er mikil skammsýni á ferð, því ef það er einhver ástæða til að berjast um eitthvað þá er það vatn og súrefni. Orðalag í trúarbókmenntum eru hjóm eitt miðað við slíkar grundvallarþarfir. Ég hef sterka vissu í mínum huga fyrir því að mannkyninu muni auðnast að bjarga loftslagsmálum okkar jarðarbúa. Og sama vissan segir mér að það séu einmitt umhverfismálin sem fái okkur til að vinna saman sem ein heild og þannig náist friður á jörðinni. Við Íslendingar erum gríðarlega mikilvægur hlekkur í þessari keðju. Við höfum náð afar langt á þessum sviðum og getum miðlað gríðarlegri þekkingu á svo mörgum sviðum.  Við höfum sýnt það og sannað að það er algjör óþarfi að eyða tíma, mannafla og fjármunum í hernað. Við höfum á undra skömmum tíma náð að brjótast úr sárustu fátækt til alsnægta. Við höfum með gríðarlegri tækniþekkingu beislað mikið að hreinni orku. Hér er atvinnustig hátt, menntun góð, manngildi virt, fátækt lítil á heimsmælikvarða. Við höfum öfluga almannaþjónustu og þó hún sé á vissan hátt á villigötum nú um stundir, þá höfum við alla burði til að lagfæra það og það sem betra er, núverandi stjórnvöld hafa viljann til þess.


Biðjum Guð

Biðjum Guð um bata fyrir litla 4 ára drenginn sem slasaðist í Reyjanesbæ í gærkvöldi.


Áskorun til allra birt - Aðventu-átak.

Þórdís Tinna,  Moggabloggari númer eitt,  er engin venjuleg kona.

Hún er skemmtileg, alltaf að hjálpa öðrum og sér það jákvæða við nánast allar kringumstæður.

Eins og flestir vita, á hún við alvarleg veikindi að stríða. 

Það þarf ekkert að kynna Þórdísi Tinnu, svo þekkt er hún orðin fyrir að vera hún sjálf.

Nú er rétti tíminn til að sýna Þórdísi Tinnu stuðning í verki. 

Sýnum samstöðu og styðjum við hana og dóttur hennar, Kolbrúnu Ragnheiði, svo þær geti notið hátíðanna, lausar við fjárhagsáhyggjur.  Þúsundkall eða Fimmþúsundkall..... allt hjálpar.

 

Bankareikningur

0140-05- 015735.     Kt.101268-4039

 

Ég skora á aðra bloggara að taka þátt og birta samskonar færslu á sinni síðu. 


Málfrelsi þingmanna

Ég get ómögulega tekið undir þau sjónarmið Vinstri grænna að það sé skerðing á málfrelsi að takmarka ræðutíma þingmanna í umræðum á Alþingi. Helgi Hjörvar pakkaði þessari andstöðu þeirra snyrtilega inn þegar hann sagði að ef þingmenn gætu ekki tjáð skoðun sína á máli á 15 mínútum þá væru hlutirnir einfaldlega ekki í lagi. Það fátt leiðinlegra en langorðir ræðumenn og þar eru þingmenn í algjörum sérflokki. Þeir hafa allflestir tileinkað sér langar útskýringar, gjarnan endurtekningar og orðskrúð sem í mörgum tilfellum er algjörlega óþarft. Umræður um mál á Alþingi og utan þess eiga að vera gegnorðar og málefnalegar. Þannig kemst lýðræðið best til skila og þannig fá fleiri að tjá sig. Langorðir ræðumenn skerða málfrelsi hinna


Skerðing hjá Lífeyrissjóðunum

Neitun barst frá 6 lífeyrissjóðum við tilboði Jóhönnu Sigurðardóttir um að ríkissjóður bætti lífeyrissjóðunum upp kostnað svo hægt væri að hætta við skerðingu 16-til 17 hundruð örorkulífeyrisþega. Hvað gengur sjóðunum til, eru reiknimeistarar þeirra með annað forrit en tryggingastærðfræðingur sem ráðherra fékk til að meta kostnað sjóðanna af því að fresta eða hætta við skerðinguna. Eru sjóðirnir að freista þess að fá ráðherra að einhverju samningaborði svo hægt sé að ræða aðrar lausnir. Það er ekki gott að segja, en mér finnast það vondar fréttir ef til þess kemur í alvöru að öryrkjarnir verði skertir.


Meira um áfallatryggingasjóð

Ég las í Mogganum áðan að Gylfi Ásbjörnsson er svartsýnn á að hugmyndin um Áfallatryggingarsjóð nái að blómstra. Mér finnst allt og snemmt að afskrifa þessa frábæru hugmynd og Gylfi hefur sjálfur sagt að viðhorfsvinnan mundi taka tíma. Í stað þess að fara í fýlu þá eiga allir aðilar sem koma að þessum málum að setjast niður og finna flöt sem allir geta náð samstöðu um og hagnast á. Endurhæfing fljótt og eftirfylgni um lengri tíma er afar brýnt mál. Að finna leið til að fólk haldi sínu fjárhagslega sjálfstæði er líka afar brýnt mál.  Aðila málsins tel ég vera; félagsmálaráðuneytið, fjármálaráðuneytið,  lífeyrissjóðina, öryrkjabandalagið, launþegahreyfingarnar, vinnuveitendur, endurhæfingaraðila, þar á meðal Endurhæfingu Norðurlands og fleiri. Það er oft þannig að góðar hugmyndir eru nokkurn tíma að ná eyrum allra og það tekur tíma að kynna málið. Hugmyndin að baki Áfallatryggingarsjóðs er alltof góð til að við köstum henni. Það getur þurft að laga hana betur að fleiri hópum og það er ekkert ómögulegt í þeim efnum. Sjónarmiðiðin eru mörg og þau ber að skoða vandlega.


Áfallatryggingasjóður

Nú í aðdraganda komandi kjarasamninga hafa ASÍ og Samtök Atvinnulífsins sett af stað vinnu við endurskoðun veikindaréttar, sjúkradagpeninga, örorkubóta og endurhæfingar.

Tillögur starfshópsins eru að veikindaréttur verði 2 mánuðir, sem launþeginn vinnur sér inn fyrstu 2 árin á vinnumarkaði. Sá réttur flytjist síðan sjálfkrafa milli vinnustaða. Ef veikindi standa lengur en 2 mánuði sækir launþeginn um bætur hjá Áfallatryggingasjóði og á sama tíma fer í gang endurhæfingarferli. Miðast endurhæfing ávalt við þarfir hvers einstaklings og er honum fylgt eftir alla leið.

Áfallatryggingasjóður kemur í stað sjúkradagpeninga frá stéttarfélögum og Tryggingastofnun og í stað örorkulífeyris frá Lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun.

Sjóðurinn greiðir bætur í allt að 5 ár. Einnig greiðir hann kostnað við endurhæfingu starfhenduhæfingu og nám, ef launþegi þarf að breyta um starfsvettvang. Starfsstöðvar sjóðsins verða um allt land og sem næst þeim sem þiggja þjónustu sjóðsins. Sjóðurinn verður til með framlögum frá aðilum vinnumarkaðarins, lífeyrissjóðum og væntanlega ríkinu. Bætur taka mið af tekjum viðkomandi fyrir veikindi, en verða ekki tekjutengdar að öðru leiti. Málið er enn á umræðustigi og ekki ljóst hver niðurstaðan verður.

Nánar á www.asi.is - fréttaefni – veikindaréttur – Kynning á...

Fyrirgefningin

Það er til fyrir myndar að verslunareigandinn í búðinni í Hlíðunum skuli fara þá leið að gefa drengjunum færi á að koma til sín og biðjast fyrirgefningar. Fyrirgefning er mun áhrifaríkari en refsing og því fylgir mjög sterk tilfinning að fá fyrirgefningu þegar mistök hafa verið gerð . Ég sá frétt um daginn í sjónvarpinu þar sem Biskup í Afríkuríki talaði um nauðsyn þess að deiluaðilar í landi hans sættust. Hann talaði um fyrirgefninguna sem lausn og vísaði þar í Suður Afríku sem dæmi. Hann taldi Stríðsglæpadómstól ekki geta lokið þessu máli. Það var á þessum manni að skilja að Nelson Mandela hefði verið talsmaður þessarar aðferðar og hún hafi gefist vel það. Þarna fannst mér koma fram nýr tónn sem mannkynið þarf að gefa meiri gaum að. Að finna lausn á málum er svo nauðsynlegt, hvort sem það er í smáu eða stóru.


Að gera eitthvað sérstakt

 

Öll viljum við, finna eitthvað sérstakt, gera eitthvað sérstakt og vera eitthvað sérstakt.

Við hér í Húnaþingi vestra (Hvammstangi og nágrenni) höfum uppgötvað að við höfum eitthvað sérstakt í okkar byggðarlagi og viljum gjarna gera eitthvað sérstakt við þessa uppgötvun. Við höfum alla burði til að verða sérstök á heimsvísu í náttúrutengdri ferðaþjónustu.

Og þetta sérstaka okkar er selurinn sem liggur hér í látrum á ströndum Húnaflóa. Selurinn var til skamms tíma talinn hinn mesti skaðvaldur vegna hringorma sem bærust frá honum í þorskinn og það kostaði fiskvinnsluna stórfé að plokka úr fiskholdinu.

Selurinn hefur verið hér hjá okkur um aldir hefur verið svo sjálfsagður partur af umhverfi okkar. Og hverjir vöktu athygli okkar á selnum, voru það íslenskir ráðgjafar í ferðaþjónustu? Nei það voru ferðamenn sem hafa komið hingað undanfarna áratugi til að skoða sel.

Við vorum upptekin af að segja þessum ferðamönnum frá klettum, fjöllum, fossum og ýmsu öðru sem okkur fannst sjálfsagt að þeir hefðu áhuga á. Þeim fannst örugglega flott að skoða þessi náttúrundur okkar, en fyrst og fremst var það selurinn sem heillaði. Á gististöðum í héraðinu var auðvitað reynt að kynna svæðið, en ferðamennirnir kinkuðu kolli og spurðu svo. Hvar getum við séð selina?

Þar koma að við vöknuðum, stofnuðum Selasetur Íslands ehf og hófumst handa. Með því að reka Selasetrið sem fræðasafn og rannsóknarsetur, fengust fjármunir frá ríkinu. Einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki hafa líka keypt hluti í fyrirtækinu. Áhugafólk um selaskoðun kemur í safnið og er mjög ánægt, en það vill líka skoða lifandi dýr í náttúrlegu umhverfi. Því hafa verið stofnuð fyrirtæki sérstaklega til þess að sinna þeirri þörf.

Áki ehf býður uppá selaskoðun af sjó frá Hvammstanga og Æðarvarp ehf er að byggja upp aðstöðu til selaskoðunar af landi á Illugastöðum á Vatnsnesi. Bæði þessi fyrirtæki eru frumkvöðlar í ferðaþjónustu og eru að bjóða þjónustu sem ekki er boðin með þessum hætti annarstaðar við landið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Höfundur

Hólmfríður Bjarnadóttir
Hólmfríður Bjarnadóttir

Höfðagötu 1 531 Hvamms-tanga.

Fædd 1945 og er Húnvetningur í báðar ættir. Fædd steingeit og mikið fyrir að príla eins og geitum er tamt. Á ekki lengur ferðaþjónustuna, en aðrir tóku við keflinu í vor. Í haust fékk fyrirtæki þeirra, Selasigling ehf viðurkennigu frá Ferðamannastofu sem frumlegasta nýjungin í ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Ég er stolt og glöð með þessa viðurkenningu, fyrir hönd okkar hjóna og þeirra sem héldu frumkvöðlastafinu áfram. Er núna að hanna og prjóna pils úr lettlopa sem á að selja ferðamönnum. Ég er gift Sævari Jónatanssyni, við eigum 4 börn og 8 barnabörn.

94 dagar til jóla

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Grill 036
  • Grill 035
  • Grill 035
  • Kosningar 2033
  • Grill 001

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband