Færsluflokkur: Dægurmál

Umræðan um Evrópusambandið

Umræðan um Evrópusambandsaðild verður háværari með hverjum deginum hér á landi sem er ekki skrítið. Ástæðurnar æpa líka á okkur úr öllum áttum. Krónan okkar er svo agnarsmá að hún á sér ekki lífsvon í ólgusjó alþjóðlegra fjármálamarkaða. Það er enginn áfellisdómur yfir neinum heldur bláköld staðreynd sem við verðum að vinna út frá. Ef við tökum sjósókn sem dæmi á má líkja þessu við smábát sem hoppar og skoppar á öldutoppum út á reginhafi í hvernig veðri sem er. Það hefur ekki enn tekist að smíða skip sem getur ekki sokkið þó margir hafi reynt. Það er mun öruggara að ferðast með stóru vel hönnuðu skip milli landa, en smábát. Þó er stjórn Seðlabankans að rembast eins og rjúpan við staurinn að hafa stjórn á íslenska hagkerfinu sem bert fyrir veðri og vindum á alþjóðahafi peningamála með örgjaldmiðli og okurvöxtum.

Þessi þráhyggja er beinlínis hlægileg en um leið alveg ömurleg og óskiljanleg. Menn reyna að bíða af sér umræður eins og einu sinni var hægt og rembast við að telja okkur trú um að þetta sé besta leiðin fyrir fólkið í landinu. Fólkið í landinu veit bara betur og gerir kröfur um úrbætur. Þjóðin kann að lesa, skrifa og reikna svo það gengur ekki lengur að bera svona fáránlega hluti á borð fyrir hana. Við erum upplýst þjóð sem er meðvituð um að vera hluti af alheiminum, en ekki einangruð og fáfróð eins og við vorum fyrir fáeinum áratugum.


Hestakerrur frá Hvammstanga

Hér á Hvammstanga er rekið lítið bílaverkstæði sem heitir Bílagerði ehf. Til að fylla uppí "dauða tíma" var fyrir nokkrum árum farið að smíða kerrur fyrir vélsleða, hesta og hvað annað sem flytja þarf. Þörfum markaðarinns hefur verið sinnt af kostgæfni og nú er svo komið að hestakerrur frá Bílagerði eru af hestamönnum, taldar með þeim bestu á landinu. Starfsmönnum hefur fjölgað hægt og sígandi og nú er það húsnæðið sem setur skorður frekar en eftirspurn. Þarna er vaxtarbroddur sem huga þarf að og koma til móts við. Góð mótvægisaðgerð eða hvað. Auðvitað Kveðja frá Hvammstanga fríðabjarna


Almennt þjónustustig hátt í Húnaþingi vestra

Á atvinnumálafundinum 22. janúar kom fram í umræðum um ferðamál að almennt þjónustustig væri mjög hátt í sveitarfélaginu. bæði það opinbera og einkarekna. Þetta atriði er afar mikilvægt fyrir okkur öll og með góðri kynningu á það að laða til okkar fólk og fyrirtæki. Í ferðaþjónustunni er þetta líka mjög mikilvægur hlekkur. Fjölmörg heilsárs rekin fyrirtæki í almennri þjónustu er ómissandi hluti af ferðaþjónustu.

Heilsugæsla, matvöruverslanir, bifreiðaverkstæði, bakarí, áfengisútsala, hárgreiðslustofa, blómabúð, þvottahús og svo framvegis og framvegis. Ferðamennirnir eru bara fólk eins og við sem þarf á allskonar þjónustu að halda og nýtir hana líka.

Húnaþing vestra er aðlaðandi kostur til búsetu. Hér er undirlendi mikið og grösugt, samgöngur góðar, við erum miðsvæðis milli Akureyrar, Ísafjarðar og Reykjavíkur. Vestfirðirnir, Borgarfjörðurinn og Skagafjörðurinn handan við hornið. Við komumst allra okkar ferða allt árið um kring og erum í alfaraleið. Hér býr dugmikið og framsækið fólk sem lítur á breytingar í samfélaginu sem verkefni, en ekki tilefni til vols eða væls. Við horfum fram og erum ekki föst í fortíðardraugum sem tröllríða mörgum byggðarlögum nú um stundir.


Góður árangur hjá Fæðingarorlofssjóði á Hvammstanga

Ég var á fundi um atvinnumál í Húnaþingi vestra (Hvammstangi og nærsveitir) 22. jan. s.l. sem var liður í vinnu ráðherranefndar um aðgerðir í atvinnumálum á Norðurlandi vestra. Þrír vinnuhópar störfuðu á fundinum og var einn um færslu opinberra starfa út á land. Talsmaður hópsins var Elín Jóna Rósenberg Fjármálastóri Fæðingarorlofssjóðs. Í máli hennar kom fram að á því eina ári sem sjóðurinn hefur starfað á Hvammstanga, hafi náðst verulegur árangur í að bæta þjónustu hans. Tíminn frá því umsókn berst og þar til búið er að afgreiða hana hefur styttast og þeim úrskurðum sem vísað er til úrskurðarnefndar og nefndin hnekkir (sendir til baka) hefur fækkað verulega. Þarna er stafsmannavelta í lágmarki og menntunarstig starfsmanna hátt. Hópurinn myndar samhent og skilvirkt teymi sem vinnur mjög faglega.

Þessi góði árangur er mikil hvatning til ríkisstofnana að flytja störf út á land. Ungt fólk vill setjast þar að og tekur fagnandi þeim tækifærum sem þar bjóðast. Það er virkilega sterk mótvægisaðgerð að flytja slík atvinnutækifæri á landsbyggðina.


Vestmannaeyjar og gosið

Mikið var fróðlegt og gaman að fylgjast með Kastljósinu í kvöld frá Eyjum. Þar kom vel í ljós hvað samstaða, elja og þrautseigja geta áorkað. Neita að gefast upp og hafa trú á verkefninu. Þarna var enginn grátkór á ferð, heldur fólk á öllum aldri sem vissi hvað það hafði og var að þakka fyrir lífgjöfina þegar tæpt stóð. Sögurnar voru margar og góðar, en parið sem hafði sofið yfir sig, var afskaplega góð saga og sögð svo fallega og af svo mikill einlægni.  Möguleikar Eyjamanna í ferðaþjónustu eru gríðarlegir og uppgröftur húsanna er einstakur á heimsvísu. Þarna er verið að grafa upp rústir eftir svo skamman tíma að meiri hluti íbúa þeirra er enn á lífi og getur gefið húsunum líf með minningum fyrir og úr gosinu. Þarna er um heimssögulegan atburð að ræða sem margir vilja skoða og svo eru til heimildarmyndir. Til hamingju Eyjamenn


Föt og hnífar

Já það gengur á ýmsu í pólitíkinni. Með hnífasett í baki og bréfabunka í hendi vaða menn um völlinn og reyna að slá sig til riddara. Heldur finnst mér nú lagst lágt þegar verið er að skattyrðast út af nokkrum spjörum sem menn eru meira að segja vaxnir uppúr. Það þarf enginn að segja mér að þetta sé í fyrsta skipti sem frambjóðendur eru dressaðir upp fyrir kosningar. Litgreining, framkoma í fjölmiðlum og annað eftir því hefur örugglega verið partur af ímyndarsköpun frambjóðenda til margra ára. Þó þú sért ósammála einhverjum, þá þýðir það ekki að sá hinn sami sé óalandi og óferjandi. Sá sem ásakar annan er oft að lýsa eigin innræti þegar betur er að gáð. Og vopn í hendi getur verið varasamt. Endilega notið eitthvað sem skiptir máli fyrir fólkið í landinu þegar takast skal á í pólitík.


Viltu vera meðm

Sem betur fer er góður meirihluti sem stendur að baki ríkistjórninni okkar á Íslandi og litlar líkur á að einhverjir tækifærissinnar geti doblað aðra tækifærissinna til að vera meðm og koma í svona meirihlutaleik. Svona óstöðugleiki er ekki hollur fyrir neinn og það má líkja Reykvíkingum við skilnaðarbörn sem varla vita hvaða pabbi eða mamma er nú í spilinu á morgun. Þó allt sé breytingum háð, þá eru takmörk fyrir því hvað hægt er að hringla með hlutina. Sem betur fer bý ég ekki í Reykjavík þar sem skipt er um borgarstjórnarmeirihluta eins og nærföt. Óstöðugleikinn syðra hefur samt áhrif um allt land því þarna býr jú stór hluti þjóðarinnar. Nú er bara að vona að spilaborgin gangi til baka og Tjarnakvartettinn geti haldið áfram sinni góðu vinnu.


Að vakna við vondann draum

Ég skreið undir sæng um 5 leitið, til að fá mér smá síðdegisblund og vaknaði rétt í þann mund að fréttirnar á Stöð 2 voru að fara í loftið. Ég var aðeins ná áttum, þreifa eftir gleraugunum og einhverjum spjörum þegar Edda Andrés byrjar að lesa fréttayfirlitið. Meirihlutinn í Reykjavík sprunginn og búið að jarða Fisher í kyrrþey fyrir austan fjall. Ég er svosem ekki hissa á að Fisher hafi verið búinn að hugsa fyrir sínum legstað og viljað ráða því sjálfur, gott hjá honum og blessuð sé minning hans. 

En hvað er í gangi í Reykjavík, er 1 apríl eða hvað - nei það er víst 21. jan. Ég reyni að ná skipulagi í kollinu, en hvað er nú þetta? Ólafur F að verða borgarstjóri og kominn undir sæng með Villa og félögum. Nú fyrst versnar það og hver var svo ágreiningurinn. Ég reyni að átta mig á ruglinu. Ég svelgi í mig langar og margar viðtalarunur og átta mig betur og betur á því að hér eitthvað mjög furðulegt á ferðinni. Að skipta Degi B. Eggertssyni út fyrir Ólaf F. Magnússon er eins og bjóða hafragraut fyrir nautasteik með öllu. Jakkafötin hans Björns Inga verða bara hlægileg og hnífasettin í bakinu á vinum hans líka. Á að bjóða Reykvíkingum þetta rugl í borgarstjórn. Hvað ef Ólafi finnst á sig hallað eða á móti sér mælt. Fer hann þá bara og finnur sér nýja "leikfélaga".

Ég var síðan með pylsur í kvöldmatinn og þá rifjast það upp að fyrir margt löngu þurfti ég að láta sauma gat á hausnum á yngri syni mínum. Þá var Ólafur F læknir hjá okkur og meðan hann var að setja nokkur spor í strákinn, var hann stöðugt að tönglast á því að hann hefði borðað pylsur í hádeginu sem hann hafði geymt sem leifar í ísskápnum hjá sér yfir nótt. Hann var svo sjúklega hræddur við að fá matareitrun og deyja. Ég og meinatæknirinn glottum á laumi og kyntum heldur undir. Grun hef ég um að pylsurnar hafi farið til baka eftir að bróderinguni var lokið.


Gleðifréttir

Hillary að ná sér á strik í forvali fyrir framboð til forseta Bandaríkjanna, Stefán Ólafsson skipaður stjórnarformaður Tryggingastofnunar og Margrét Frímannsdóttir að taka við fangelsismálum. Það er ekki á hverjum degi sem svona frábærir hlutir gerast. Þarna eru þrjár frábærar persónur sem um árabil hafa vakið athygli og barist fyrir réttindamálum þeirra sem minna mega sín. Bandaríska þjóðin á það svo sannarlega skilið að fá forseta sem ber hag þegnanna fyrir brjósti og þá er ég að tala um fólkið í landinu, en ekki vopnaframleiðendur og valda og fésjúka karla sem einskis svífast til að maka krókinn. Tryggingastofnun er að fá til forystu mann sem um árabil hefur einskis látið ófreistað að  benda á það ranglæti í málefnum tekjulágra sem viðgengist hefur í stjórnartíð Helmingaskiptastjórnarinnar sálugu. Þar vantaði reyndar vopnaframleiðendur í kompaníið, en nóg var hinsvegar af valda og fésjúkum körlum. Ég vænti líka mikils af Margréti Frímannsdóttir fyrir hönd þeirra sem dæmst hafa til vistunar í fangelsum landsins. Hún hefur í gegnum árin verið óþreytandi að tala fyrir aukinni hjálp og þjónustu til handa þessu fólki og nú er hennar tími kominn.

Þarna eru frjálslyndir jafnaðarmenn á ferð og það er sú manngerð sem líklegust er til að bæta heimsmálin til framtíðar.


Framboð til Forseta

Ég er afar ánægð með að Ólafur Ragnar Grímsson skuli gefa kost á sér til forsetaframboðs einu sinni enn. Hann hefur að mínu mati staðið sig gríðarlega vel í embætti og er sem stendur að gera svo marga góða hluti á alþjóða vettvangi, að mér finnst nauðsynlegt að hann verði í embætti eitt kjörtímabíl í viðbót. Hann mundi eflaust halda áfram að vinna að þessum málum, en það er mun sterkara að hann geri það í embætti en utan þess.

Mér er að sama skapi lítt um það gefið að Ástþór Magnússon blandi sér í málið enn einu sinni. Hann hefur þegar gert það tvisvar of oft. Ég er mjög sammála fyrrverandi formanni kjörstjórnar í Reykjavíkur kjördæmi norður um það að endurskoða beri reglur um fyrirkomulag framboðs til forseta hvað varðar fjölda meðmælenda og hver texti á meðmælendaskjölum skuli vera. Það er misþyrming á lýðræðinu að hægt sé að gera at í þjóðinni trekk í trekk með þessum hætti.

Ég skora á Ástþór Magnússon að láta af þessari þráhyggju og láta það fé sem hugsanlega færi í kosningabaráttuna, renna til líknarmála. Hann væri maður að meiri.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Höfundur

Hólmfríður Bjarnadóttir
Hólmfríður Bjarnadóttir

Höfðagötu 1 531 Hvamms-tanga.

Fædd 1945 og er Húnvetningur í báðar ættir. Fædd steingeit og mikið fyrir að príla eins og geitum er tamt. Á ekki lengur ferðaþjónustuna, en aðrir tóku við keflinu í vor. Í haust fékk fyrirtæki þeirra, Selasigling ehf viðurkennigu frá Ferðamannastofu sem frumlegasta nýjungin í ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Ég er stolt og glöð með þessa viðurkenningu, fyrir hönd okkar hjóna og þeirra sem héldu frumkvöðlastafinu áfram. Er núna að hanna og prjóna pils úr lettlopa sem á að selja ferðamönnum. Ég er gift Sævari Jónatanssyni, við eigum 4 börn og 8 barnabörn.

94 dagar til jóla

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Grill 036
  • Grill 035
  • Grill 035
  • Kosningar 2033
  • Grill 001

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband