Færsluflokkur: Dægurmál

Ágætu alþingismenn

Mér finnst að þið séuð alltof neikvæð í tali og séuð oft meira að hugsa um að skamma hvert annað en að ræða þjóðmálin af gætni og visku. Það er mikill ábyrgð sem fylgir ykkar störfum og við kjósendur vonumst svo sannarlega eftir að heyra ykkur ræða hvert við annað af kurteisi og virðingu. Svo eru fjölmiðlarnir ekki nægilega vandaðir í vali á ræðuköflum sem fluttir eru í fréttatímum. Segið endilega frá málefnalegum umræðum um þingmál sem skipta okkur þegnana máli, en verið ekki stöðugt að dæla í okkur skömmum og skætingi. Þau sem þannig tala á Alþingi eru ekki að vinna vel fyrir kaupinu sínu. Þingtíminn er ekki svo langur og því nauðsynlegt að nýta hann vel og skynsamlega. Gagnrýni og skoðanaskipti eru auðvitað hluti af ykkar vinnu, en ekki skammir og skætingur ágætu þingmenn.


Samdráttur í umsvifum ríkisins

Já það er draumur margra að draga úr umsvifum ríkisins. Þetta fer vel í munni og lítur afar vel úr á prenti, en hvernig virkar það í raun. Ef einhverjum hópi stjórnmálamanni dettur í hug að láta reka einhverja stofnun ríkisins eins og fyrirtæki, þá hrópar ævinlega annar hópur einkavæðing - einkavæðing og allt ætlar um koll að keyra. Einkarekstur er af mörgum talinn af hinu illa og sé beinasta leiðin til að mismuna þegnunum. Bandaríkin eru auðvitað ýkt dæmi um slíkt og þá sérstaklega heilbrigðiskerfið þeirra. Þó ég sé ekki sérfræðingur um sjúkrahúsmálin þar vestra, þá finnst mér að tryggingakerfið þeirra eigi þar mikla sök. Þegar hluti þegnanna er ekki tryggður þá er ekki von að allir sitji við sama borð. Svo er ekki hér eða hefur ekki verið fyrr en vinnuafl fór að koma til landsins frá ríkjum sem ekki eru með tvíhliða samninga um þau mál. Þá fórum við að sjá "Bandarísk" dæmi um mismunun sem okkur eru framandi.

Þó ríkið geri samninga við einkarekin fyrirtæki um tiltekna þjónustu á það ekkert skylt við slíka mismunun. Ég tel að slíkir samningar geti ef til vill höggvið á ýmsa hnúta í heilbrigðiskerfinu sem nú eru að valda miklum vanda. Heilbrigðiskerfið í heild sinni er orðið að nokkurs konar ríki í ríkinu og svo er trúlaga með fleiri þætti í okkar ríkisrekna kerfi. Hvernig við nálgumst uppbrot að þeim kerfum eru ekki allir sammála um.

Ég hallast æ meira að því að færa sveitarfélögum margskonar slíka þjónustu. Sameining sveitarfélaga með skipulegum hætti og með lagasetningu er kannski hörð aðgerð, en til þess að ná árangri í því sviði þarf hörku og þá er lagasetning trúlega vænlegasta leiðin. Við höfum ekki tíma til að bíða eftir öllum þrákálfunum sem einblína á einhverja fortíðardrauma sem ekki eiga lengur við. Ef sveitarfélögin eru öll yfir tiltekinni lágmarksstærð hvað varðar íbúafjölda svo sem 2.000 manns, þá breytist margt og mikil hagræðing mundi nást ásamt aukinni þjónustu.


Málefni aldraðra

Ég er svo heppin að á mínum heimaslóðum er öldrunarstofnun þar sem nær eingöngu eru eins manns herbergi með sér snyrtingu og sturtu. Þar eru líka nokkur rými ætluð sambýlisfólki. Þessi herbergi eru öll á jarðhæð og þar í kring er garður að hluta. Göngustígur er umhverfis húsið með bekkjum til að sitja á með hæfilegu millibili. Sunnan megin er góð stétt með limgerði í kring. Þar eru garðhúsgögn og þar sitja heimilismenn í góðu yfirlæti. Á efri hæð öldrunarstofnunar er sjúkradeild þar sem fólk fær alla þá ummönnun sem við á hverju sinni.

Í næsta nágrenni er tveggja hæða hús með litlum, fallegum og vistlegum íbúðum til leigu á vægu verði fyrir einstaklinga og sambýlisfólk. Í því húsi er lyfta svo allir komist leiðar sinnar. Félagslíf eldri borgar í minni heimabyggð er mjög gott og mikið við að vera á fjölmörgum sviðum

Ég veit vel að ekki eru íbúar í öllum byggðarlögum svona heppnir, en í minni heimasveit Húnaþingi vestra eru þessi mál sem betur fer í góðu horfi. Auðvitað viljum við alltaf gera enn betur og það sem okkur hér vantar helst eru hentugar íbúðir á einni hæð fyrir fólk sem vill minnka við sig eftir barnauppeldi og svoleiðis. Ég fékk í vetur í hendur teikningu að hentugu parhúsi sem skipt er með bílskúrum. Byggt hefur verið eftir þessari teikningum á nokkrum stöðum út á landi og gefist vel. Það er stofnaður félagskapur um byggingu og rekstur á hverjum stað. Ég á eftir að kynna mér þá hlið málsins betur og get því ekki sagt nægilega vel frá. Þetta er eitthvað svipað Búseta en þó ekki eins. Minn draumur er að koma svona félagskap á laggirnar hér og byggja svona hús ef markaður er fyrir hendi. Segi betur frá því síðar.


Aðgerðir ríkisstjórnar

Mikið hefur verið talað um aðgerðarleysi núverandi ríkisstjórnar í fjármálakreppunni undanfarnar vikur. Hvaða aðgerðir er verið að biðja um. Ríkisstjórnin ræður ekki vöxtum eða gengi eins og var fyrir nokkrum árum. Ekki getur hún hlutast til um málefni bankanna með beinum hætti eins og áður var. Ekki getur hún handstýrt verðlagi eins og gert var til skamms tíma.

Hún getur hins vegar kallað sama forystufólk helstu heildarsamtaka í íslensku þjóðfélagi og óskað eftir samstilltum aðgerðum til að hamla verhækkunum eins og mögulegt er. Freystað þess að ná fram þjóðarsátt um samstillt  átak. Og það er stjórnin að gera eins og frá hefur verið sagt nú í vikunni. Ríkistjórnin getur líka komið með frekari aðgerðir til kjarajöfnunar til viðbótar því sem þegar hefur verið gert. Svo getur hún lagt til lagabreytingar varðandi stjórntæki Seðlabankans sem margir telja að gagnist lítt eða ekkert. Hún getur breytt lögum um ýmiskonar aukakostnað almennings eins og að afnema stimpilgjöld, seðilgjöld og fleira. Slíkar aðgerðir eru í undirbúningi og er það vel.

Ríkistjórn og alþingi marka stefnu okkar til framtíðar og þar er nauðsynlegt að skoða með markvissum og upplýstum hætti kosti og galla  Evrópusamstarfs og aðildar að ESB.  Þar liggja okkar framtíðarmöguleikar og þá er nauðsyn að skoða hið fyrsta af fullri alvöru og án fordóma.

Gömul hugsun gærdagsins getur reynst okkur fjötur um fót og sett okkur til hliðar í alþjóðlegu samstarfi. Við höfum talað um rétt annarra þjóða til mikilla og góðra samskipta við umheiminn. Mannréttindi eru okkur hugleikin. Það eru mannréttindi að ekki sé stundað okur í þjóðfélaginu. Að slíkt sé gert í skjóli stjórnvalda með valdaframsali til stjórnar Seðlabanka er fremur vafasöm stjórnvaldsaðgerð. Við eigum rétt á því íslendingar að njóta sanngjarnra kjara þegar við leigjum okkur fjármagn til eigin nota eða til fyrirtækja okkar.


Bílstjóramálið

Mótmæli vörubílstjóra undanfarið hafa valdið ýmsum vandræðum fyrir ólíklegustu hópa samfélagsins. Fyrst má telja stjórnmálamenn sem hafa neyðst til að hlusta á hóp úr grasrót samfélagsins sem talar nú upphátt um vanda sem á honum brennur. Hátt verðlag á eldsneyti, háa skatta á eldsneyti, háa vexti, reglugerð um hvíldartíma sem eru á skjön við íslenskar aðstæður, sektagleði lögreglunnar vegna reglugerðarinnar og svo framvegis.

Svo eru það auðvitað allir þeir vegfarendur sem ekki hafa komist leiðar sinnar á þeim leiðum sem tepptar hafa verið. Ráðherra sem þurftu að ganga í vinnuna. Ráðherrabílstjórar sem lögðu ólöglega í beinni útsendingu. Fréttamann sem var svo óheppinn að missa kaldhæðin brandara inn á netið þar sem ekki var beðið boðanna með aftöku í rituðu máli.

Það hljóp líka heldur betur á snærið hjá lögreglunni að geta æft sig með plastskildina og piparúðann. Og þá var sko ekkert gefið eftir og látið vaða á allt og alla. Einhvernvegin hélt ég að svona úði og önnur úrræði  lögreglunnar væru notuð í nauðvörn gegn ofbeldi þar sem mikil hætta væri á ferðum. Þar sem ég sá umrædda atburði aðeins í sjónvarpi getur verið að ég hafi ekki skynjað "hættuna" nægilega sterkt. Hún var að minnsta kosti ekki yfirþyrmandi.

Þetta minnti mig á Húnavökuball fyrir rúmum 40 árum á Blönduósi. Það var ný "balllögga" að taka fyrstu vaktina og nú átti að taka ákveðinn gaur úr umferð. Mikil "aðgerð" var hafin á dansgólfinu og stefndi í myndarleg hópslagsmál. Þá kemur "lögga" með reynslu (mikill rólyndismaður) og leggur hönd á öxl óróaseggsins og segir með hægð, "Komdu aðeins með mér útfyrir góði". Þar með var allur vindur úr slagnum sem leystist upp í einni svipan. Nýja balllöggan missti þarna "gullið tækifæri" til að beita öllum handtökuaðferðunum og áhorfendur stóðu eftir eins og sneyptir hundar.

Í "bílstjóraslaginn" vantaði svona róleg og mannleg viðbrögð hjá lögreglunni en "gasið" var þess í stað látið vaða með tilheyrandi látum.


Stjórnarsáttmálinn opinn fyrir aðildarviðræðum

Geir Haarde hefur  margsagt að umsókn um aðild að Evrópusambandinu sé ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar. Það hefur með góðum vilja mátt skilja orð hans svo að um slíkt sé bókun í stjórnarsáttmálanum. Mikið var því gott að heyra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir lýsa því yfir að hvorki sé ákvæði í sáttmálum um að ganga til aðildarviðræðna né að ganga ekki til aðildarviðræðna og í Evrópusambandið.

Ég tel að ekki sé eftir neinu að bíða og hefja þennan feril nú þegar. Taka á málið upp á Alþingi Íslendinga og í framhaldi af því að hefja formlegar viðræður við Evrópusambandið til undirbúnings aðild. Þá munu hinir raunverulegu valkostir koma í ljós og fólkið í landinu fengi upplýsingar úr nútímanum. Þjóðin bíður eftir aðgerðum og upplýsingum, margar spurningar um aðild brenna á vörum og þeim verður að svara og það sem fyrst.

Þeir sem hæst tala gegn aðild eru trúlega með eldri upplýsingar í bland við nýjar og taka þá fyrst og fremst það sem hentar best hverju sinni. Við erum búin að fá nóg af försum um aðild eða ekki aðild. Látum reyna  á viðræður og fáum raunveruleg svör.


Óttinn

Sá hræðsluáróður sem rekinn er nú um stundir er afskaplega skaðlegur fyrir fólkið í landinu. Það er hinsvegar afskaplega mikilvægt að láta hann ekki ná tökum á sér og menga hugann. Það er hugur okkar, hugur minn og þinn sem skapar framtíð mína og þína. Peningar eru núna aðalumræðuefnið og það væri sko í lagi ef ekki væri sífellt talað um skort á peningum.

Það er nóg til af orku í alheiminum og peningar eru ekkert annað en ein tegund orku. Fyrir 20 árum í óðaverðbólgu 9. áratugarins fór ég í gegnum gjaldþrot. Það var mjög merkileg reynsla að mörgu leiti og eitt það merkilegasta sem ég heyrði á þeirri leið var setning sem Jón Ísberg þáverandi sýslumaður Húnvetninga sagði við mig þegar ferlið var að fara af stað. Hann sagði; "Mundu eitt Hólmfríður mín, þetta eru BARA peningar".

Þarna kom hann að kjarna málsins, enda vitur og lífsreyndur maður Jón Ísberg. Þessi setning hefur æ síðan fylgt mér og ég er að skilja hana betur og betur með hverjum deginum sem líður. Peningar eru okkur nauðsynlegir og þeir eru hreyfiafl hlutanna.  Það eru þó ekki þeir sem stjórna, heldur þinn eigin hugur. Hann ræður ætíð för og skapar þér lífskjör og líðan.

Ef óttinn fangar hugann er þér voðinn vís. Þá geta peningar ekki læknað eða bætt ástandið. Gerum óttann útlægann úr huganum og tökum kjarkinn, bjartsýnina og gleðina inn, ásamt öllum hinum jákvæðu tilfinningunum sem til eru. Þá geta peningarir ekki stjórnað þér lengur, þá stjórnar þú.


Tímamót

Ég upplifi nú mikil vatnaskil í lífi okkar Íslendinga. Við stöndum frammi fyrir þeim nakta sannleika að við getum ekki bæði verið á fullu í alþjóðasamfélaginu og jafnframt staðið fyrir utan. Við sem lifum á jörðinni,  erum ein stór fjölskylda og það er okkar gæfa því fyrr sem við tileinkum okkur þann sannleika.  Við hér á Íslandi sækjumst eftir sæti í Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna sem er frábært. Við erum aðilar að Sameinuðu Þjóðunum sem er frábært. Við erum aðilar að NATO sem er frábært. Við erum aðilar að EES samningnum sem er frábært. Við erum með sendiherra út um allan heim sem er frábært. Við erum með gríðarleg samskipti við aðra íbúa jarðarinnar í gegnum internetið sem er frábært.

Það er þó eitt sem passar ekki í þessa alþjóðlegu mynd af okkur og það er að við skulum vera að burðast með okkar eigin gjaldmiðil og að við skulum enn halda landinu lokuðu fyrir samkeppni á alþjóðlegum lánamarkaði. Þá er ég að tala um hina almennu borgara sem búa við einokum á útlánum frá peningastofnunum sem eru þó að keppa á alþjóðlegum peningamarkaði og sækja þar fram með miklum myndarskap. Hvernig getur þetta verið að gerast á 21 öldinni þegar frelsið er orðið svo mikið. Okkur er beinlínis haldið í herkví okurs og einokunar. Okkur er haldið frá því að taka þátt í margskonar jöfnunarkerfi sem Evrópuríki hafa verið að þróa innan Evrópusambandsins á undanförnum áratugum. Landbúnaðurinn á Íslandi mundi trúlaga flokkast sem búskapur á harðbýlum svæðum og njóta styrkja sem slíkur.

Sem betur fer erum við með hverjum deginum að fræðast betur og betur um raunverulega hluti í sambandi við aðild að sambandinu. Nú síðast sagði varaforseti sambandsins okkur að aðildarviðræður gætu tekið fáeina mánuði, en ekki mörg ár. Hvað er að óttast, þær grýlur sem veifað hefur verið framan í þjóðina eru svo úreltar og ónýtar að það hálfa væri nóg.

Komum okkur til nútímans, hefjum aðildarviðræður strax með alla hluti uppi á borði, tökum skref inn í framtíðina og hættum að hanga í fortíðinni, hún er liðin


Áætlanir í viðskiptum

Viðskiptaáætlanir eru markviss tæki til að skapa stefnu í rekstri fyrirtækja. Áætlanir sem eru uppsettar með þeim hætti að gert er ráð fyrir stöðugleika í rekstrarumhverfi. Orðið stöðugleiki merkir í mínum huga að gert er ráð fyrir að ákveðnir grunnþættir eins og vextir, gengi gjaldmiðla, vísitölur og önnur slík stjórntæki, sveiflast mjög lítið. Þá er gert ráð fyrir að ávöxtun fjármagns og fjárfestinga sé einnig nokkuð jöfn og stöðug. Þetta er eitthvað sem við íslendingar erum ekki vön og mörg okkar erum ekki nægilega meðvituð um gildi slíkra þátta.

Við erum alltof vön því að efnahagsmálin okkar sveiflast eins og þvottur á snúru og teljum að slíkt sé bara allt í lagi, eða svo var í það minnsta fram undir þennan dag. Það gerðist svo eftir að við urðum aðilar að EES samningnum að ýmsir hlutir fóru að vera stöðugri og vextir hjá okkur fóru að nálgast það sem gerðist í nágrenninu. Okkur þótti þetta auðvitað frábært og héldum að nú væri allt í himnalagi.

Við erum þjóð mikilla framkvæmda og mjög stórhuga sem er frábært. Við erum líka land margra smákónga sem ekki þola að "völd" þeirra séu skert. Smákóngarnir töldu okkur hinum trú um að "sjálfstæði" okkar væri ógnað og að við ættum alls ekki að ganga í eina sæng með öðrum Evrópuþjóðum, heldur að halda okkar striki í opnu peningakerfi heimsins. Og nú fór aftur allt á flug, krónan okkar hækkaði og hækkaði, hagvöxturinn náði stjarnfræðilegum hæðum á ákveðnum landsvæðum og allt í bullandi gróða.

Þá gerðist það að vestur í Bandaríkjunum í "landi tækifæranna" að hugvitsömum bröskurum datt í hug að lána fólki með takmarkaða kaupgetu peninga til húsnæðiskaupa á okurvöxtum. Þetta hefði kannski "reddast" í okkar veiðimannaþjóðfélagi sem við höfum búið í undanfarna áratugi, en ekki í henni Ameríku. Þó þessi aðferð hefði átt að sýnast varasöm frá upphafi, þá voru nógu margir "áhættufjárfestar" tilbúnir í slaginn og blaðran stækkaði.

Þar kom svo að hún sprakk með hvelli og miklu bölsýnisvæli. Okkar peningaspekúlantar sem allt vissu best hækkuðu þá bara vextina á okkar litla markaði upp úr öllu valdi til að þvinga okkur til að herða ólina. Hvernig dettur mönnum í hug að bæta olíu á eld sem logar að fullum krafti. Á að stöðva hjól íslenska samfélagsins sem er partur af miklu stærra gangverki. Þetta er eins og reka járnkall niður um bílgólf á fullri ferð og reyna þannig að stöðva farartækið.

Umræðan um aðild að EB hefur aldrei verið háværari enn nú. Þjóðin krefst þess að nú sé tekið á málum af skynsemi og hafin strax undirbúningur að aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Sú ákvörðun mundi skapa okkur skýrann ramma um efnahagsstefnuna. Einnig mundi hefjast markviss undirbúningur að breytingum á laga og reglugerðaumhverfi samfélagsins. Það tekur vissulega tíma að breyta stefnunni en um það erum við meðvituð.

Þegar slíkur rammi væri kominn utan um okkar mál er loks hægt að fara að gera áætlanir í viðskiptum sem mark er takandi á. Á það bæði við um ríkisfjármálin og rekstur fyrirtækjanna og heimilanna í landinu.


Sammála Jóni Baldvin

Þó ég sé ekki búin að lesa greiningu í Mannlífi með Jóni Baldvin, þá er ég sammála honum þegar hann segir að skipta þurfi um stjórnendur í Seðlabankanum. Þessi síðast vaxtahækkun bankans er þvílíkt óráð svo ekki sé talað um dylgjur Davíðs Oddsonar um að einhver öfl hafi orsakað gengisfall krónunnar. Ætli það sé "Baugsmafían eða hennar fylgifiskar" sem standa þar að baki. Að maðurinn skuli láta slíkt útúr sér og komast upp með það. En betra að snúa sér að öðru vitlegra tali sem eru þær háværu raddir sem heyrast æ sterkar um að skoða þurfi í alvöru að hefja undirbúning að aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Við verðum að hefjast handa og það strax við að undirbúa málið. Raunar veit ég að undirbúningur hefur verið í gangi innan Samfylkingarinnar. Þar hafa málin verið rædd og krufin til mergjar og þar hefur stór hópur málefnalegra íslendinga séð að rétt er að ganga til þessa verks. Það er með öllu óskiljanlegt að hugsandi fólk sem vill teljast málefnalegt og telur sig bera hag þjóðarinnar fyrir brjósti, skuli ekki vilja ljá máls á að taka þess umræðu.

Kannski er þessi efnahagsdýfa sem nú er í gangi okkur Evrópusinnum hagstæð. Hún opnar vonandi augu hins almenna borgar fyrir því að nú sé nóg komið af þeirri firru að við getum verið út á reginhafi alþjóðafjármála með pínulítinn gjaldmiðil og hentistjórnun dintótts og valdasjúks seðlabankastjóra sem fær strengjabrúður í einkavinaklúbbnum til að dansa með og halda fram rökum sem ekki halda vatni


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Höfundur

Hólmfríður Bjarnadóttir
Hólmfríður Bjarnadóttir

Höfðagötu 1 531 Hvamms-tanga.

Fædd 1945 og er Húnvetningur í báðar ættir. Fædd steingeit og mikið fyrir að príla eins og geitum er tamt. Á ekki lengur ferðaþjónustuna, en aðrir tóku við keflinu í vor. Í haust fékk fyrirtæki þeirra, Selasigling ehf viðurkennigu frá Ferðamannastofu sem frumlegasta nýjungin í ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Ég er stolt og glöð með þessa viðurkenningu, fyrir hönd okkar hjóna og þeirra sem héldu frumkvöðlastafinu áfram. Er núna að hanna og prjóna pils úr lettlopa sem á að selja ferðamönnum. Ég er gift Sævari Jónatanssyni, við eigum 4 börn og 8 barnabörn.

94 dagar til jóla

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Grill 036
  • Grill 035
  • Grill 035
  • Kosningar 2033
  • Grill 001

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband