Færsluflokkur: Dægurmál

Ein með öllu!!

Ég var ekkert hissa þegar bæjarstjórinn á Akureyri kynnti þá ákvörðun að takmarka aðgang að tjaldsvæðum á Akureyri. Hvort valið á aldinum var rétt skal ósagt látið, en það loks að því að einhver gekk fram fyrir skjöldu og sagði, hingað og ekki lengra. Fyrir nokkrum árum hlustaði ég á pistil hjá Þórarni Tyrfingssyni um alkaholisma. Þar kom verulega margt áhugavert fram eins og vænta mátti. M. a. talaði Þórarinn um svokallað normal viðmið almennings hvað varðar hegðun fólks undir áhrifum áfengis. Það sem átt er við er hvað okkur þykir eðlileg hegðun fólks í slíku ástandi. Það sem þótti ótækt fyrir allmörgum árum, var við hæfi fyrir nokkrum árum og þykir eðlilegt í dag. Þessi kenning alkalæknisins sannaði sig rækilega um helgina. Þeir sem hneyksluðust yfir drykkju og  skrílslátum fyrir nokkrum árum, voru bókstaflega að fara á límingunum yfir ákvörðun Akureyringa. Orð eins og stjórnarskrárbrot og mannréttindabrot voru látin falla. Það eru auðvitað mannréttindi að fá að tjalda á útihátíð þegar maður er orðinn 18 ára. Gallinn er bara sá að öllum réttindum fylgir ábyrgð og sú ábyrgð er á báða vegu. Ef þú getur ekki borið ábyrgð á sjálfum þér, er þá ábyrgðin okkar??

Fólkið með kústana

Ég hef andstætt ýmsum sem hér skrifa, fulla trú á því að þessi ríkisstjórn hafi burði og vilja til að snúa vörn í sókn fyrir svæðin með neikvæða hagvöxtinn. Kannski er of snemmt að ætlast til að raunhæfar aðgerðir séu komnar í ljós. Við skulum muna að stjórnin hefur jafnaðarstefnuna í pokahorninu og þar liggur hundurinn grafinn. Það er búið að herða snöruna svo fast að hálsi okkar í formi ójöfnuðar að nú verður að beita björgunaraðgerðum sem ganga út á hæga endurlífgum svo fórnarlambið fái ekki sjokk. Nú er fólkið með kústinn að hefja hreinsunina og þá getur þyrlast upp svo mikið ryk að við sjáum ekki út. Ekki er þó hægt að bíða mjög lengi, því sjúklingurinn er í öndunar vél sem stendur.


Dúsa sett í Byggðastofnun

Ég varð fyrir vonbrigðum með þá fjármuni sem settir voru inn í Byggðastofnun nú við opnun Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Skuldajöfnun hefur trúlega markast af stöðu mála og ekkert nema gott um það að segja. Framlag ríkisins, heilar 200 milljónir til tveggja ára er smánarlega rýrt á sama tíma og fjármagnsskatturin flæðir í ríkissjóð í milljarðavís. Á þessi fjárhæð að koma til bjargar þeim hlutum landsins þar sem neikvæður hagvöxtur hefur verið um árabil. Nú er af miklum "stórhug" skorin örlítil sneið af þjóðarkökunni, sneiðin mulin smátt niður og henni dreift yfir þessa landshluta. Auðvitað verða svo herlegheitin tíunduð rækilega í fjölmiðlum.

Nei takk og nú er kominn tími til aðgerða sem skipta máli. Okkur vantar digran sjóðmeð þolinmóðum peningum til að lána í nýja og öfluga uppbyggingu. Það á ekki að klastra við gamla kofa sem hvorki halda vatni né vindi, heldur byggja nýja og öfluga atvinnustarfsemi við hlið þeirrar sem ennþá lifir. Gefa frumkvöðlum alvöru tækifæri og setja reglur sem heimila styrki til nýrra fyrirtækja í ákveðin tíma þó samkeppnisaðilar finnist kannski á öðru landshorni. Það er enginað tala um að styrkja 3 hótel á Hólmavík eða 6 golfvelli á Sauðárkróki.


Samúðarkveðjur

Ég átti erindi við Glitnir í gegnum síma í gær sem ekki eru neinar fréttir. Ég kynnti mig og bar upp erindið og vottaði síðan starfmönnum fyrirtækisins samúð mína vegna harmleiks helgarinnar þar sem starfsmaður Glitnis er annar hinna látnu. Símastúlkan þakkaði mér óskaplega vel fyrir og sagði starfsmenn mjög slegna sem von er. En svo sagði hún eitt sem vakti mikla furðu. " Þú ert sú fyrsta sem vottar okkur samúð af þeim sem ég hef talað við síðan um helgi". Hún vinnur við að svara í síma og talar því við marga á dag. Er það ekki sjálfsögð kurteisi að votta samúð þegar við hittum eða ræðum við fólk sem tengist fráfalli á einhvern hátt. Ættingja, vini og vinnufélaga. Það er gert án þess að fara inna einkalíf þess sem í hlut á, en getur veitt ómetanlegan stuðning.

Þegar miklir sorgaratburðir eiga sér stað í samfélaginu, erum við venjulega dugleg að sína samhug. Kannski er ekki sama hvað það er sem gerist?


Harmleikur

Tveir ungir menn fallnir í valinn, engin nöfn hafa enn verið nefnd.  Sorglegar fréttir og svo óréttlátar, óréttlátar vegna þess að trúlega hefði mátt ræða málin fyrst. En kannski var það gert og engin lausn fannst. Niðurstaðan er heldur ekki lausn, en hvað veit ég. Það er ekki mitt að dæma og skal ekki gert. Ég votta aðstandendum og vinum þessara manna dýpstu samúð og bið fyrir sálum hinna látnu.

Hugleiðing á sunnudegi

Í gær var Einar Oddur jarðsunginn og fylgdi honum fjöldi manns síðasta spölinn. Ég las með athygli og trega í hjarta, síðasta viðtalið sem BB á Ísafirði tók við Einar.  Þar er þjóðfélagsmálin rædd beint út  á skiljanlegu máli og eins og hans var vandi. Skilningur hans á þróun í þjóðfélaginu kemur mjög sterkt fram og bent á leiðir sem virðast við afar raunhæfar, skynsamlegar og umfram allt vel framkvæmanlegar. Þeir sem hafa minnst Einars Odds hafa margir talað um hans hlut í Þjóðarsáttinni 1992. Nú þarf þjóðarsátt um framtíðarstefnu í sjálfri þjóðfélagsgerðinni og þar er vert að skoða tillögur Einars Odds.


Nýting fiskistofna mál allra

Fiskimiðin okkar eru dýrmæt fyrir heiminn allan. Skynsamleg nýting þeirra er því mál almennra borgar, ekki bara á Íslandi, heldur vítt um veröld. Hnattvæðingin er mál okkar allra, umhverfismál er mál okkar allra, nýting auðlinda er mál okkar allra. Olíufurstar ráða lögum og lofum í mörgum löndum þar sem þá auðlind er að finna. Svo er einnig í mörgum öðrum greinum atvinnulífs um allan heim. Við munum þurfa olíu og fisk áfram og munum greiða fyrir hvorutveggja. Gjaldið fyrir vöruna fer í alltof mörgum tilfellum að stórum hluta í auðsöfnun lítils hóps. Laun verkafólksins er lágt og kjör þess að öðru leiti slök. Allir sem koma að verðmætasköpun eiga að njóta góðs afraksturs. Við erum öll jafn rétthá í þeim efnum.

Sókn í auðlindir sjávar verður að stjórna með umhverfisvernd og hagkvæmni í huga.


Evrópusambandið já takk

Mikið er ég sammála Björgvini G Sigurðssyni viðskiptaráðherra þegar hann segir að besta leiðin til á lækka vexti og matarverð sé að ganga í Evrópusambandið og taka upp Evruna. Í rauninni finnst mér þetta svo augljóst að ekki þurfi að  flytja langar ræður til að samfæra fólk um ágæti þess. Umráð okkar yfir fiskimiðunum eru helstu rök andstæðinga inngöngu. Auðvitað þarf að  skoða kosti þess og galla að ganga í bandalagið. Varðandi fiskimiðin höfum við ráðið þeim ein og sjálf frá því landhelgin var færð út. Hefur íslenska þjóðin yfirráð yfir miðunum? Nei því miður er það ekki svo, það eru stórskipaeigendur í LÍÚ sem þar ráða ferðinni og hafa gert síðan kvótakerfinu var komið á. Stórútgerðarmenn sáu sér leika á borði þegar farið var að tala um fiskveiðistjórnun og sáu til þess að kerfið yrði klæðskerasaumað að þeirra þörfum. Þeir hafa náð æ sterkari tökum á stjórnvöldum með hverju árinu og nú var rétti tíminn til að láta kné fylgja kviði og koma kvótalausum útgerðum og smábátunum af miðunum. Vorralli Hafró var veifað framan í þjóðina sem tilvonandi dánarvottorði þorsksins. Ef þorskstofninn er í þessari hættu er þá ekki rökrétt að takmarka veiðar nótveiðiskipa og auka krókaveiðar. Verður fiskveiðistjórnun Evrópusambandsins lakari eð hvernig er hún yfir höfuð. Á hverju byggist hún og í hverju er hún frábrugðin okkar stefnu. Mér finnst nauðsynlegt að fá haldgóðar upplýsingar um fiskveiðistefnu bandalagsins hvað í henni felst fleira en að ákvarðanir séu eknar í Brussel.

Utanríkisráðherrann okkar í Ísralel og Paletstínu

Það er ljóst á fréttaflutningi af ferð Ingibjargar Sólrúnar um átakasvæðin fyrir botni Miðjarðarhafs að konur hugsa öðruvísi en karlar. Hún tekur ekki afstöðu með öðrum aðilanum heldur lítur á manneskjur í vanda, hvorumegin landamæranna sem er. Það að hún skyldi heimsækja konu sem fékk eldflaug á húsið sitt. Þessi kona á heima í Ísrael og þá hugsar Ögmundur Jónasson með sér, hún Ingibjörg stendur með Bandaríkjamönnum fyrst hún gerir þetta. Svo er Ingibjörg að tala um sættir og það finnst sumum hér heima einkennilegt. Hvernig á svona lítil þjóð eins og við að hafa áhrif. Þar er verið að tala um alla spottana sem kippt er í út og suður. Er það sáttaleið eða getur aðili sem er innviklaður í átökin verið sáttasemjari. Það eina sem er hefðbundið við stríð er að það eru að mestu karlmenn sem heyja þau. Tilefnið er oftast trúarbrögð og peningar, ástæðan valdagræðgi vegna hvorutveggja.

Þó svo að við íslendingar séum ekki lausir við þá bresti sem oftast leiða til stríðs, þá erum við ekki með her, ekki í beinum átökum og ekki  innviklaður í valdablokkirnar með þeim hætti sem mörg önnur ríki eru. Þess vegna eru meiri líkur til að deiluaðilar treysti okkur til hlutleysis og áliti okkur trúverðugri til að miðla málum en ýmsa aðra. Utanríkisráðherra frá hlutlausu ríki sem það að auki er kona með afar þroskaða stjórnmálavitund, hlýtur því að vera góður kostur til að stýra friðarviðræðum. Við getum verið stolt af þessum orðum Ingibjargar og ættum öll að flykkjast að baki henni, í stað þess að gera hana tortryggilega með vanhugsuðum dylgjum.


Ótti við breytingar

Þegar til stendur að gera eitthvað sem veldur breytingum í umhverfi okkar, daglegum háttum eða öðru sem við "höldum" að muni raska einhverju í okkar daglega ramma förum við gjarnan í vörn. Ég er engin undantekning frá því þó ég sé að reyna að sjá breytingar fyrir með jákvæðum augum.

Ég man þegar nágrannar mínir byggðu húsin sín og ég missti svolítið að þeirri víðáttu sem ég sá út um gluggana hjá mér. Svo komu húsin og heimurinn hélt áfram að vera til eins og ekkert væri, skrítið nei kannski smá og þó. Heimurinn breytist á hverjum degi hvað sem við segjum, sumt er aðeins betra en annað aðeins lakara. Það er reyndar oft vesen meðan verið er að breyta. Umræður um skipulagsmál eru fyrirferðarmiklar og hafa orðið meiri með hverju árinu sem líður. Mér dettur stundum í hug að fólkið sem mótmælir hæst sé í svo miklu stofufangelsi heima hjá sér að það komist bara ekki út fyrir hússins dyr. Það sé verið að negla endanlega fyrir gluggana hjá því og nú sé ekkert eftir nema myrkur og volæði. Vanafestan er slík að ekki má neinu hagga og svo gleymdist að spyrja um leyfi hjá kóngum og prestum. Við verðum að opna augun og skoða þróun í heiminum. Ef alltaf hefði verið hlustað á öll mótmæli þá værum við trúlega á steinöld ennþá. Bændur mótmæltu símanum 1906, ef á þá hefði verið hlustað þá værum við enn einangruð frá umheiminum, vistarbandið trúlega enn við líði og flest okkar værum enn að hokra í sveitum landsins. Það er nógu slæmt að vera einangruð hvað varðar landbúnaðarafurðir og vera með hæsta matarverð sem vitað er um. Heimurinn er ein heild og það eru svo fáránlegar reglur í gangi sem hindra miljónir menna í að komast betur af. Hvort það er hús í nágrenninu eða aðrar breytingar sem nauðsynlegar eru til framþróunar, þá skulum við taka þeim með opnum huga og vera bjartsýn jákvæð og hlusta á þá sem útskýra fyrir okkur til gang breytinganna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Höfundur

Hólmfríður Bjarnadóttir
Hólmfríður Bjarnadóttir

Höfðagötu 1 531 Hvamms-tanga.

Fædd 1945 og er Húnvetningur í báðar ættir. Fædd steingeit og mikið fyrir að príla eins og geitum er tamt. Á ekki lengur ferðaþjónustuna, en aðrir tóku við keflinu í vor. Í haust fékk fyrirtæki þeirra, Selasigling ehf viðurkennigu frá Ferðamannastofu sem frumlegasta nýjungin í ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Ég er stolt og glöð með þessa viðurkenningu, fyrir hönd okkar hjóna og þeirra sem héldu frumkvöðlastafinu áfram. Er núna að hanna og prjóna pils úr lettlopa sem á að selja ferðamönnum. Ég er gift Sævari Jónatanssyni, við eigum 4 börn og 8 barnabörn.

94 dagar til jóla

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Grill 036
  • Grill 035
  • Grill 035
  • Kosningar 2033
  • Grill 001

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband