Færsluflokkur: Dægurmál

Davíð konungur

Þessi grein er birt á bloggsíðu Egils Helgasonar og mér finnst hún eiga að sjást sem víðast. Vona að EH sé ekki á móti því !!

Hér er grein úr Frankfurter Allgemeine Zeitung. Hún birtist í lok október, en kemur hér í íslenskri þýðingu. Rétt er að taka fram að FAZ er virtasta – og virðulegasta blað – í Þýskalandi og þó víðar væri leitað.

-----

Davíð konungur
Íslenski seðlabankastjórinn, Davíð Oddsson, hangir í stöðu sinni, en áhrif hans fara ört minnkandi.

Hann var hrollvekjandi þegar hann kom inn á sviðið og það átti hann líka að vera. Sem Ubu konungur í samnefndu leikriti eftir David Jarry þótti stúdentinn Davíð Oddsson standa sig afar vel. Sumarið 1970 sögðu menn að hann ætti bjarta framtíð í vændum.

En mörgum Íslendingum fannst líka hrollvekjandi sjónvarpsviðtalið við Davíð Oddsson haustið 2008 og að þessu sinni voru áhrifin ekki þau sem hann sjálfur hafði hugsað sér.

Leikarinn fyrrverandi var nú orðinn seðlabankastjóri sem setti lánstraust allrar þjóðarinnar í hættu. Því (hann sagði) að samkvæmt neyðarlögum sem sett voru í tilefni af efnahagshruni eyjunnar, gæti ríkið gæti engan veginn ábyrgst innstæður erlendra viðskiptavina í stóru íslensku bönkunum,
Sá sem legði peninga í áhættuspil, væri óreiðumaður, sagði Davíð Oddsson. Þetta hafði seðlabankastjórinn eftir ömmu sinni. Og fyrir slíkt framferði ætti almenningur ekki að borga.

Þessi vægast sagt óheppilega yfirlýsing leiddi fyrst til diplómatískrar spennu í samskiptum við Stóra-Bretland þar sem fyrir var sérlega stór hópur af meintu óreiðufólki sem hafði áhyggjur af sparifé sem það hafði skrapað saman. Davíð Oddssyni tókst meira að segja að koma hinum hlédrægu Íslendingum í nokkurt uppnám sem fékk útrás í háværum mótmælum. Síðastliðinn laugardag mótmæltu þeir seðlabankastjóranum og hinni mjög svo ómarkvissu peningastjórn hans. Í fyrstu hafði hann hækkað stýrivexti upp í áður óþekktar hæðir – 15.5% og þar með hrakið marga sem á lánsfé þurftu að halda yfir í aðrar myntir, en lækkaði svo skyndilega vextina verulega og gaf þar með upp á bátinn alla vörn gegn verðbólgunni.

Margir glenntu upp augun í undrun þegar Oddsson, eftir að hafa leitað á náðir Putins sjálfs, tilkynnti að fengist hefði margra milljarða lán frá Rússlandi til að forða íslenska seðlabankanum frá hruni. Nokkrum klukkustundum síðar varð hann svo að éta ofan í sig (draga til baka) þessa frétt. Það vakti einnig miklar efasemdir þegar, samkvæmt fyrirmælum Davíðs Oddssonar, reynt var í tæplega einn dag að festa gengi íslensku krónunnar á gjörsamlega óraunsæju plani.

Næg ástæða til afsagnar. Sá sem það heldur, þekkir ekki Davíð Oddsson. Því þessi sextugi lögfræðingur með úfna hárlubbann er einstakur í sinni röð á pólitíska sviðinu á eldfjallaeyjunni. Þegar hann sem utanríkisráðherra, tók sér embætti seðlabankastjóra árið 2005, var ætlunin að hér yrði um virðulegt brotthvarf úr stjórnmálum að ræða, en alls ekki innreið hans í leikhús fáránleikans. Áður en hann gegndi embætti utanríkisráðherra um tiltölulega skamman tíma hafði Davíð Oddson verið forsætisráðherra þessa lands með 320.000 íbúa í samtals 13 ár – lengur en nokkur annar – og þar áður hafði hann verið borgarstjóri Reykjavíkur um níu ára skeið. Hér var semsagt á ferðinni eins konar blanda af Willy Brandt og Helmut Kohl, ef maður kýs að setja fram eins konar þýskan samanburð. Auk þess hafði Davíð Oddsson reynt fyrir sér sem rithöfundur og fréttamaður, starfað að gerð og flutningi gamanþátta í útvarpi og veitt forstöðu sjúkrasamlagi.

En meginverkefni hans í lífinu var að gegna hlutverki hins kraftmikla endurbótasinna.  Hans pólitísku heimkynni voru innan vébanda hins hægrisinnaða íslenska Sjálfstæðisflokks sem ætíð hafði að leiðarljósi hagsmuni fyrirtækja og framkvæmdamanna. Mitt í efnahagskreppu árið 1991 varð Davíð Oddsson forsætisráðherra og hann tók sér til fyrirmyndar Margaret Thatcher og Ronald Reagan. Hann notaði tækifærið til að gera veigamiklar breytingar; draga úr styrkjum og velferð, galopna dyrnar fyrir líffræði- og erfðarannsóknum, svo og orkufrekum iðnaði um leið og frjálsræði var stóraukið á sviði fjármála og gjaldeyrisviðskipta. Þar með var sáð fræinu að örum vexti íslensku bankanna, svo og skyndilegu hruni þeirra.

En í fyrstu lotu gerði uppskrift Davíðs Oddssonar Ísland að efnahagsundri í einni svipan. Og hann kunni svo sannarlega að meta allt lofið sem á hann var borið fyrir þetta framtak sitt. Stórfenglegar sviðsetningar urðu nánast sérgrein hans; þar fengu að njóta sín persónutöfrar mannsins, orka hans og frekja. En á lokaskeiði veldis hans, fóru mistökin að skjóta upp kollinum. Gæluverkefni hans, tvær íburðarmiklar opinberar byggingar í Reykjavík urðu mun dýrari en áætlanir höfðu gefið til kynna, skattar lækkuðu ekki á almenningi á tímabili ríkisstjórnar hans, þrátt fyrir yfirlýsingar um hið gagnstæða, opinberlega varð ljóst að löggjöf um fjölmiðla sem hann hugðist keyra í gegn var að verulegu leyti grundvölluð á óvild milli hans og framkvæmdamannsins Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Ástæðulaust er hins vegar að seilast inn í fortíðina og leita þar uppi yfirsjónir til að sakfella Davíð Oddsson. Til þess nægja mistök síðasta mánaðar ein og sér. “Davíð burt” stóð á kröfuspjöldum mótmælenda í Reykjavík. Auk þess er baklandið í hans eigin flokki að hrynja. Bak við luktar dyr er þegar sett fram hörð gagnrýni, út á við er henni hins vegar ennþá haldið niðri; of föst bönd voru knýtt á liðnum áratugum, of marga greiða þarf að endurgjalda, taka þarf tillit til of margra tengsla. Geir Haarde sem nú veitir honum vernd, var lengi pólitískur uppeldissonur hans. En hversu lengi sem Davíð Oddssyni tekst að ríghalda í embættið er valdaafsal hans engu að síður óhjákvæmilegt.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setur nefnilega skilyrði fyrir margra milljarða lánveitingu til Íslands. Davíð Oddsson verður að draga sig í hlé og minnast um leið leiksýningarinnar þar sem hann gegndi hinu fræga hlutverki. “Bubbi kóngur” nefndist hann á íslensku, hinn skelfilegi konungur Ubu í leikriti David Jarrys – og nafnið hefur loðað við Davíð Oddsson.

Í lok leikritsins flýr hinn afsetti harðstjóri til Frakklands.

Upprunaleg grein:
Frankfurter Allgemeine Zeitung, 27.10 2008
König David - Islands Notenbankchef Oddsson klebt an seinem Posten / Aber sein Einfluss schwindet

 


Hvað segir Gunnar Tómasson um aðdraganda bankakreppunae

Mér finnst þessi færsla frá Gunnari Tómasyni á bloggi Egils Helgasonar á eyjunni.is  svo góð skýring á núverandi ástandi hjá okkur að ég stóðst ekki freistinguna að birta hana hér. Vona ég að Gunnar Tómasson sé því ekki mótfallinn

Gefum Gunnari orðið;

Hvað er að gerast?

Aðsteðjandi vandi er ávöxtur innlendra hagstjórnarmistaka um langt árabil, sem kemur nú fyrst fram í dagsljósið vegna áhrifa óhagstæðra ytri aðstæðna. Grundvallarorsök vandans er peningalegs eðlis og felst í aðgerðarleysi stjórnvalda gegn útlánaþenslu bankakerfisins sem síðustu árin hefur verið fjármögnuð að hluta með erlendum skammtímalánum.

Útlánaþenslu úr hófi fram er ekkert nýmæli á Íslandi – t.d. nam hún ca. 3450% frá 1980 til 1989 – og hefur lengst af endurspeglast í hárri verðbólgu, greiðsluhalla við útlönd og gengisfellingum. Við afnám hafta á fjármagnsflutningum og auknu framboði af lánsfé á alþjóðapeningamarkaði síðustu fimmtán árin breyttust áhrif óhóflegrar útlánaþenslu.

Í stað verðbólgu og gengisfellinga, sem héldu aftur af neyslu, fjárfestingum og erlendri skuldasöfnun, leiddi útlánaþensla til sívaxandi greiðsluhalla sem var fjármagnaður með erlendri skuldsetningu þjóðarbúsins. Menn virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því að innlend umframeyðsla fjármögnuð með erlendum lánum er í raun ein mynd verðbólgu.

Þetta kann að hafa ráðið því að í nýjum lögum um Seðlabanka Íslands frá árinu 2001 var bankanum gefið það meginhlutverk að halda verðbólgu innan við 2.5% á ári. Af reynslu síðustu ára virðast seðlabankamenn hafa dregið þann lærdóm að engin ástæða væri til að hafa áhyggjur af hugsanlegum áhrifum útlánaþenslu á verðbólgu og gengi krónunnar.

Skv. lögunum frá 2001 hefur Seðlabanki Íslands vald til að hemja útlánaþenslu bankanna með bindiskyldu og takmörkun á hreinni erlendri skuldastöðu þeirra. Hins vegar hefur The Washington Consensus, sem svo kallast, það fyrir satt að slík íhlutun stjórnvalda í ákvarðanatöku viðskipta- og fjárfestingabanka sé misráðin frá þjóðhagslegu sjónarmiði.

Seðlabankinn gaf því bankakerfinu lausan tauminn varðandi innlenda útlánaþenslu og erlenda skuldsetningu en taldi sig geta haldið verðbólgu innan 2,5% með því að hækka stýrivexti eins og The Washington Consensus hefur líka fyrir satt. Þegar í ljós kom að frjáls ákvarðanataka bankanna leiddi til verðbólgu, þá greip Seðlabankinn til stýrivaxta.

Þar með var teningunum kastað – háir stýrivextir gerðu Ísland að gósenlandi erlendra spákaupmanna, gjaldeyrir streymdi inn í hagkerfið og samsvarandi vaxtagreiðslur út, gengi krónunnar hófst í himinhæðir, ódýr innflutningur hélt verðbólgu í skefjum – en stýrivextir höfðu engin áhrif á útlánaþenslu bankanna fjármagnaða með erlendu lánsfé.

Svo breyttust ytri aðstæður.

Aðgengi bankanna að erlendu lánsfé þrengdist, útlánaþensla og lánsfjármögnuð innlend neysla og fjárfesting snarminnkuðu – Seðlabankamenn töldu þetta sýna og sanna ágæti stýrivaxtastefnu síðustu sjö ára. Á sama tíma höfðu þeir ekki séð ástæðu til að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð og virðast hafa talið jöklabréf vera jafngildi erlendra innlána.

Allt reyndist þetta vera á misskilningi byggt. Þrengingar á erlendum peningamörkuðum breyttu innstreymi vegna jöklabréfa í útstreymi, Seðlabanki Íslands lét loks til skarar skríða og tók lán hjá þýskum banka til að efla gjaldeyrisvarasjóð – enda lánveitandi til þrautavara innan íslenska peningakerfisins samkvæmt seðlabankalögunum frá 2001.

Lántaka Seðlabankans fyllti kvóta Íslands hjá þýska bankanum, sem brást við með því að afturkalla lánsloforð til Glitnis sem var bent á að leita til Seðlabankans um fyrirgreiðslu. Í kjölfarið fóru þau atvik sem Þorvaldur Gylfason lýsir í grein sinni í Fréttablaðinu í dag, Skyndibitar í skjóli nætur – og tjaldið féll á sjö ára þjóðarharmleik í Seðlabanka Íslands.

Hér lýkur færslu Gunnars

Hér eru komnar málefnalegar sýringar á því sem gerðist og er svo einhver hissa á að Davíð eigi að víkja.


Seðlabankinn afnam bindiskyldu erlendra útibúa í mars !

Já sæll, hvað er nú þetta, mundi Ólafur í Dagvaktinni segja og ekki nema von. Með þessari ákvörðun SÍ opnuðust stórauknir möguleikar fyrir því að auka innlán á Icesave reikningana, þessa sömu og "óreiðumönnunum" er kennt um. Það eru alltaf að koma fleiri kubbar í púsluspilið. Var ekki verið að vara við ástandinu í ferbúar. Þið afsakið en þetta dæmi gengur ekki upp, sorrý !!


Sameining SÍ og FE

Þarna er komin lausn á þeim hnút sem verið hefur að hrjá Geir og félaga. Hvernig þeir geti losnað við Davíð, auðvitað með því að sameina þessar stofnanir og skipa nýjan yfirmann. Og það þarf bara einn og athugið eitt, þó að eftirlaun Davíðs og félaga séu svimandi há, þá eru það smáaurar miðað við skaðabæturnar sem greiða verður vegna mistaka SÍ undir hans stjórn.


mbl.is Ákvörðun tekin fljótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð og hvítþvotturinn

 

Það er ofmælt að hægt sé að tala um hvítþvott á Davíð. Hann er nefnilega svo ataður af áralangri óhreinindasöfnun að það er til lítils að káfa aðeins yfir það sem hefur bæst við á þessu ári.

Ábyrgð Davíðs er mjög mikil á þessu hruni sem þjóðin hefur orðið fyrir. Hann hefur haft hönd í bagga með þeim lagasetningum sem voru umgjörð fjármálstefnu okkar, sem voru umgjörð bankakerfisins, sem voru umgjörð fjármálaeftirlitsins, sem voru umgjörð verðbréfaviðskipta o.s.frv. Hann hafði veg og vanda að því að vinna einkavæðingarnefndar vegna sölu bankanna var ómerkt og öll fyrri fyrirheit sett á haugana. Hann stóð gegn því að við gengum inn í ESB eftir inngöngu í EES samstarfið. Hann mótaði peningamálastefnuna sem verið hefur á Íslandi síðan 2001. Hann hafði umsjón með bindiskyldu bankanna og að gjaldeyrisforði Seðlabanka væri nægur.

Og hann situr áfram, það er hlegið að honum í útlöndum meðan við tökum andköf ef hann opnar munninn.


Árni Matt kominn með minnið

Það er með ólíkindum að fjármálaráðherra haldi því fram að ummæli Davíðs Oddssonar í morgun hafi ekki skaðað ríkistjórnina. Hann veit vonandi að við erum í net og símasambandi við útlönd, fyrir utan það að svona eldsprengjur geta valdið ýmsu hér innanlands. Meðvirkni sumra Sjálfstæðismanna er slík að þeir virðast blindir og heyrnarlausir. En það er líka eitt af einkennum meðvirkni að viðurkenna ekki raunveruleikann.


mbl.is Farið eftir ráðleggingum Seðlabankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er að flæða undan Davíð Oddssyni

Bæði Björgvin G Sigurðsson og Árni Matthísen hafa lýst því yfir í dag að þeir hafi ekki verið á þeim ráðherrafundi sem Davíð Oddson vitnaði í í morgun, þar sem hann á að hafa varað við erfiðri stöðu Bankanna. Meira að segja Geir H H er farinn að muna dálítið og kannast ekki við að Seðlabankastjóri hafi komið með athugasemdir sem ekki hafi verið brugðist við. Nú er farið að fjúka í flest skjól við Kalkhofsveginn


Sjálfstæðismenn í sjálfskoðun.

Það er alltaf gott að taka sjálfan sig aðeins til skoðunar. Nú eru Sjálfstæðismenn í skoðun á sér og stefnunni. Það er eins með þá og Framsókn að þar hafa ákveðinn hluti hópsins staðnað og orðið eftir einhvers staðar á leiðinni. Þeir hafa orðið fastir í samtryggðu peninganeti sem hefur verið orðið svo upptekið af sjálfu sér að ekki hefur verið gáð út um gluggana til að skoða umhverfið.

Eða bara gá til veðurs. Það var spáð stormur og búið að vara við því að lausamunir gætu fokið. Líka var margbúið að vara við því að þjóðarskútan væri ekki bundin við rétta bryggju. Það væri ekkert vit í að hafa hana í smábátahöfninni. Það væri blátt áfram nauðsynlegt að hún lægi með hinum skipunum í aðalhöfninni. Skipstjórinn tók ekki í mál að færa skútuna og áhöfnin gat víst ekkert gert nema að gera uppreisn. Stýrimaðurinn er alltof háður skipstjórnum til að gera nokkuð í málinu.

Nú er áhöfnin orðin óróleg og vill aðgerðir. Það á samt að bíða með ákvörðun fram í lok janúar, þó allra veðra sé von og spáin ekki góð. Búið er að bæta meira snæri á bátinn og svo er bara að vina það besta og vona að spottarnir haldi.


Umbylting í Framsókn

Það eru miklir hlutir að gerast í Framsóknarflokknum nú um þessar mundir. Það er eins og nokkurs konar pólskipti séu á ferðinni. Það hefur lengi verið ljóst í mínum huga að hin staðnaða hugsun fyrri alda, var langan tíma að fara úr hugum fólks hér á landi. Þessi hugsun snérist um að vera ekki að breyta því sem væri nú við líði, þetta væri bara gott svona.

Ég kalla þetta gjarnan hugarfar "moldarkofakynslóðarinnar".  Ég er alin uppí sveit, bý í stóru landbúnaðarhéraði og hef lengi skynjað þennan mun. Framsóknarflokkurinn hefur lengi sótt mikið fylgi í sveitirnar og verið nokkuð fastheldinn í ýmsum málum. Nú er komið að því að yngra fólkið og þéttbýlisbúarnir eru búnir að fá nóg af stöðnun. Þess vegna verður þessi ólga og ósamkomulag í forystunni. Gamla hugsunin þekkti ekki sinn vitjunartíma fyrr en hún var tekin og rekinn á dyr með látum.


Útifundur - um hvað ??

Hef undanfarna 45 mínútur hlustað á ræðumenn á útifundinum í miðborg Reykjavíkur. Ég er svo sem engu nær um vilja þessa fólks. Það vill jú kosningar í vor, Davíð burt, ríkisstjórnina burt, fjármálaeftirlitið burt, en hvað svo ?? Við erum ríkið, við viljum lýðræði hrópuðu ræðumenn hver í kapp við annan. Þetta er fyrst og fremst reiðiútrás og í versta falli vísir að vinstri sveiflu sem vill einangra landið.

Er fólk að kalla eftir þjóðastjórn, veit ekki.


Næsta síða »

Um bloggið

Höfundur

Hólmfríður Bjarnadóttir
Hólmfríður Bjarnadóttir

Höfðagötu 1 531 Hvamms-tanga.

Fædd 1945 og er Húnvetningur í báðar ættir. Fædd steingeit og mikið fyrir að príla eins og geitum er tamt. Á ekki lengur ferðaþjónustuna, en aðrir tóku við keflinu í vor. Í haust fékk fyrirtæki þeirra, Selasigling ehf viðurkennigu frá Ferðamannastofu sem frumlegasta nýjungin í ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Ég er stolt og glöð með þessa viðurkenningu, fyrir hönd okkar hjóna og þeirra sem héldu frumkvöðlastafinu áfram. Er núna að hanna og prjóna pils úr lettlopa sem á að selja ferðamönnum. Ég er gift Sævari Jónatanssyni, við eigum 4 börn og 8 barnabörn.

33 dagar til jóla

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Grill 036
  • Grill 035
  • Grill 035
  • Kosningar 2033
  • Grill 001

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband