Sanngjörn leiðrétting er ekki að taka ófrjálsri hendi

"Hinsvegar hafi forseti ASÍ bent ráðherrum ríkisstjórnarinnar „á þá einföldu staðreynd að tillaga Hagsmunasamtaka heimilanna um að láta almennt launafólk bera verulegan hluta þessa kostnaðar með því að taka lífeyrissparnað þess ófrjálsri hendi væri einfaldlega óframkvæmanleg."

Það kallast ekki að taka ófrjálsri hendi að skila því til baka sem forsendubresturinn í fjármálakerfinu hrifsaði frá íbúðareigendum í landinu. Það flokkast einfaldlega sem leiðrétting í bókhaldi Íslands. Margar og miklar leiðréttingar hafa þegar farið fram og eiga eftir að fara fram og það verður ekki talað um ófrjálsar hendur í sögubókum framtíðarinnar. Hendur ráðamanna sem ekki eru tilbúnir að gera nauðsynlegar breytingar, eru hreinlega huglausar hendur

Það er ekkert til í veröldinni sem er óframkvæmanlegt. Fyrst hægt var að bjarga 33 námaverkamönnum af miklu dýpi í Chile, þá er hægt að gera breytingar á útreikningskerfi Lífeyrissjóðanna eins og HH gera tillögu um og leiðrétta forsendubrestinn hjá heimilunum


Mín saga í stuttu máli

Ég fór í gegnum gjaldþrot 1986 og tók í framhaldinu að mér ábyrgðarkröfur af atvinnurekstri sem við vorum með í eigin nafni og varð til þess að við urðum gjaldþrota. Keypti húsið mitt til baka á verðtryggðu láni frá Húsnæðisstofnun ríkisins. 

Ábyrgðarkröfuskuldin var sett á skuldabréf þar sem ábyrgðar aðilarnir skrifuðu á að nýju (var sem sagt skuldbreytt) Þar var sett inn ÖLL UPPHÆÐIN, vextir verðbætur, dráttarvextir vegna vanskila og annað sem hægt var á þeim tíma að smyrja á. (Ekki þó lögfræðikostnaður). Hafði á þeim tíma EKKI kjark til að biðja um lækkun/leiðréttingu á neinu

Hef síðan verið þræll þess að greiða upp þessar skuldir. Þetta er það sem ég vil alls ekki að fjölskyldur nútímans gera að ævistarfi. Náði að selja húsið korteri fyrir hrun og er glöð með það.


Leiðrétting

Forsendubrestur skuldara sem ekki er leiðréttur er að mínu áliti óréttlátur ránsfengur til fjármagnseigenda.
Geri tillögu um að þeir sem hafa átt meira en 5 milljónir í innistæðum frá Hruni, skili til baka ofteknum vöxtum og verðtryggingu sem urðu til vegna forsendubrests.


Veruleg vonbrigði

Ég hef orðið fyrir verulegum, já miklum vonbrigð um með Verkalýðsforystuna varðandi skuldavandamál heimilanna. Tillögur HH eru þannig framsettar að Lífeyrissjóðirnir geta vel komið að málinu án þess að skerða réttindi eins og haldið er fram Forseta ASÍ og talsmönnum lífeyrissjóðanna. Ég hef líka orðið fyrir verulegum vonbrigðum með ríkisstjórnina, já ríkisstjórnina sem ég styð og mun ekki hætta að styðja svona heilt yfir, þó þetta sé mjög neikvætt og stórt mál.


Sérfræðinganefndin sem reiknar

Nú situr nefnd sérfæðinga og reiknar leiðir til bjargar heimilunum í landinu til að finna lausn sem er þóknanleg eigendum og vörsluaðilum peninganna í landinu. Þráinn Bertelsson telur réttilega að niðursaða nefndarinnar geti leitt til meiri bumbusláttar á götum úti og þar er ég sammála Þráni.

Hann talar líka um að líf ríkisstjórnarinnar sé í höndum þessarar nefndar og undir það get ég vissulega tekið. Ég er flokksbundin í Samfylkinguna, annan stjórnarflokkinn og hef því vissar taugar til þess hvort hún stendur eða fellur.

En stóra málið í þessu eru öll þau líf sem eru að baki þeim skuldaklafa sem lagður hefur verið á heimili þessa lands og hefur þegar sligað allt of margar axlir. Fái peningaöflin að ráða, flytja mjög margar fjölskyldur úr landi, margar fjölskyldur splundrast til viðbótar þeim sem þegar eru í rúst. Kirkjugarðar landsins muni taka við fleirum sem gefist hafa upp og flúið baslið með eigin hendi.

Hvað mun þetta kosta peningaöflin og hvað mun þetta kosta þjóðarbúið. Trúlega eru það hærri tölur en svo að þær séu birtingarhæfar.

 


Indverskur krikketmógúll vill sækja um hæli á Íslandi.

"Lalit Modi fyrrum formaður indversku úrvalsdeildarinnar í krikket hyggst sækja um hæli á Íslandi. Hann er eftirlýstur á Indlandi fyrir að hafa misnotað sjóði indverska Krikketsambandsins."

Er það virkilega orðið svo að Ísland er talinn góður griðastaður fyrir fyrir "hvítflibbaglæpamenn". Væntanlega getur hann sannað uppruna sinn og svo er gott að eiga í vinfengi við hjónin á Bessastöðum. Að mínu áliti er þetta í meira lagi dapurleg frétt og lýsir vel því orðspori sem af okkur fer úti í hinum stóra heimi.


Almenn skuldalækkun út af borðinu

Þessar fréttir gera mig dapra og leiða. Veðrið er að mismuna fjármagnseigendur í landinu grófleg. Ekki að ég sé í hópi fjármagnseigenda, hvorki sem innistæðu í banka eða ævisparnaðinn í húseign. Það blátt áfram afar hallærisleg og léleg afsökun að þjóðfélagið hafi ekki efni á að bæta almennum húsnæðiseigendum skaðann eftir hrunið.
Meðan peningum er mokað með stórvirkin vinnuvélun í stórtæka lántakendur sem margir hverjir hafa gengið um þjóðarauðinn eins og þetta væru þeirra einkaeigur.


Vinnubrögð undangenginna áratuga

Þegar mál Baldurs Guðlaugssonar er íhugað og viðbrögð samherja hans við ákærunni, er nokkuð ljóst að svona vinnubrögð hafa verið tíðkuð um áratugaskeið. Þar er ég að tala um alls kyns viðskipti innan fjármálakerfis og ríkiskerfis sem hafa mörg hver trúlega verið á afar gráu svæði, bæði siðferðis og lagalega. Umræður um vafasöm viðskipti í sjávarútvegi hafa verið mikið í umræðunni, en það virðist raunar ólíklegt að ein atvinnugrein skeri sig úr. Grái markaðurinn hefur verið landlægur og siðferðið lagt til hliðar í fjölmörgum viðskiptum. Skuldauppgjörið sem nú fer fram í landinu er að mörgu leiti með ólíkindum og þar standa fulltrúar Gráa markaðarins saman eins og einn maður.


Baldur Guðlaugsson og innherjasvikin

Að mínu áliti er ákæra gegn Baldri Guðlaugssyni ákveðið skref í áttina til þess að ná til þjóðarmeinsins, þess hóps sem raunverulega stóð og stendur enn að því að ná til sín auðæfum þjóðarinnar í skjóli stjórnvalda sem setið hafa við völd á Íslandi síðustu áratugina. Þar er ekki gerður greinarmunur á því hverjir sátu í ráherrastólum hverju sinni.
Sýndarrannsókn sem fram fór vegna hans í stjórnartíð Geirs H Haarde, var á þeim tíma talin fullnægjandi og átt að sýna sakleysi hans. Nú þegar málið hefur verið skoðað af alvöru án fyrirframgefinna málaloka, kemur það sanna upp á yfirborðið og nú er það dómstóla að skera úr um sekt eða sakleysi

 


Óttinn við niðurskurð í Heilbrigðiskerfinu

Ég bý í Hvammstangalæknishéraði og þar er rekin Heilbrigðisstofnun og Heilsugæslustöð sem eru hluti af Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Hér var skurðstofan aflögð um 1970 og fæðingar voru aflagðar á Sjúkrahúsinu snemma á 9. áratugnum. Heilsugæslan hér er öflug og hér eru frábær aðbúnaður fyrir aldraða, með dvalardeild og sjúkradeild.

Hér er öflug mæðravernd og ungbarnaeftirlit.

Farið var í viðamiklar sparnaðaraðgerðir í aðdraganda sameiningar við aðrar Heilbrigðisstofnanir á Vesturlandi.

Hitti kunningjakonu í apótekinu (sem er útibú frá Lyfju) í gær. Hún var greinilega óttaslegin vegna tilhugsunar um að hér yrði dregið enn meira saman. Ég sagði henni í aðalatriðum það sem ég veit um sparnaðaraðgerðirnar sem fram fóru um það leiti sem Ögmundur var Heilbrigðisráðherra. Þær fólust í því:

  1. að farið var að greiða framlag ríkisins á réttum tíma (ekki mánuði of seint) sem aflétti þörfinni fyrir yfirdráttarláni sem nam mánaðarkostnaði við rekstur og safnaði vaxtaskuld.
  2. að farið var í vaktabreytingar sem fólust í að ákveðinn fjöldi vakta var styttur (í stubbavaktir á mestu álagstímum) sem orsakið lækkað starfhlutfall hjá starfsmönnum, en ekki uppsagnir.
  3. að laun voru lækkuð hjá yfirfólki.
  4. að farið var í saumana á ÖLLUM innkaupum.

Húsnæði er í góðu ástandi og viðhaldskostnaður því viðráðanlegur. Stórkostlegar endurbætur ekki í sjónmáli næstu árin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Höfundur

Hólmfríður Bjarnadóttir
Hólmfríður Bjarnadóttir

Höfðagötu 1 531 Hvamms-tanga.

Fædd 1945 og er Húnvetningur í báðar ættir. Fædd steingeit og mikið fyrir að príla eins og geitum er tamt. Á ekki lengur ferðaþjónustuna, en aðrir tóku við keflinu í vor. Í haust fékk fyrirtæki þeirra, Selasigling ehf viðurkennigu frá Ferðamannastofu sem frumlegasta nýjungin í ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Ég er stolt og glöð með þessa viðurkenningu, fyrir hönd okkar hjóna og þeirra sem héldu frumkvöðlastafinu áfram. Er núna að hanna og prjóna pils úr lettlopa sem á að selja ferðamönnum. Ég er gift Sævari Jónatanssyni, við eigum 4 börn og 8 barnabörn.

175 dagar til jóla

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Grill 036
  • Grill 035
  • Grill 035
  • Kosningar 2033
  • Grill 001

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband