24.1.2010 | 15:00
Brennuvargar samfélagsins okkar
Var að lesa ræðu Atla Steins Guðmundssonar sem hann flutti á Austurvelli í gær 23.01.10.
Þarna talar reiður maður sem fer með miklum boðaföllum eftir sínum tilfinningalega skala. Hann og fjölskyldan að flytja úr landi og ekkert við því að segja, því það er val hvers og eins. Ég sakna þess þó að við getum ekki notið krafta fjölskyldunnar við endur reisnina hér heima.
Að reisa heilt samfélag úr rústum er ekki bara nokkurra mánaða vinna, ekki einu sinni fyrir Jóhönnu. Reiði Atla Steins beinist geng vinnufólkinu sem er að leggja grunn að nýju samfélagi en það er að mínu mati ekki réttur aðili til að reiðast.
Hverjir eru brennuvargarnir sem brenndu samfélagið okkar til grunna, jú vissulega voru það gírugir fjárglæframenn sem tendruðu bálið og blésu eftir mætt í glæðurnar.
Hver lánaði þeim eldspýturnar og sá um olíuna á bálið? Sá heitir Davíð Oddsson og stjórnaði landinu eftir sínu eigin höfði og geðþótta um árabil, fyrst sem forsætisráðherra og síðan sem Seðlabankastjóri.
Hans hægri hönd í ríkisstjórn og flokknum, síðar verndari hans sem Seðlabankastjóra, forsætisráðherrann Geir H Haarde horfði á og Sjálfstæðisflokkurinn fylgdist með. Þessi sannleikur er kominn út á prenti og ber nafnið, Sofandi að feigðarósi eftir Ólaf Arnarson
Halldór Ásgrímsson gaf sjálfum sér og öðrum vildarvinum fiskinn í sjónum skömmu eftir 1980 og þaðan kemur upphaf fjárglæfranna. Það vita jú allir landsmenn, ekki satt.
Jóhanna er hamhleypa í að sópa, en talsmenn fjárglæfranna gera allt sem þeir geta til að tefja spilla og skemma. Sú skemmdarstarfsemi hefur verið send út beint frá Alþingi undanfarna mánuði.
Spyrjið fjárglæframennina um skjaldborgina, þeir eru trúlega að gera allt sem mögulegt er til að skemma hana og skekkja. Fjármálakerfið í landinu er með marga þeirra í vinnu ennþá, þó þekktu andlitin séu ekki lengur á skjánum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
33 dagar til jóla
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 110484
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þú ert svo "clueless" að undrum sætir. Ég verð bara að taka ofan fyrir því.
Jón Steinar Ragnarsson, 24.1.2010 kl. 16:36
Það þarf bara aðra búsáhalda byltingu hér á landi. Það er bara svo.
Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 18:25
Takk fyrir innlitin strákar mínir.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 24.1.2010 kl. 19:42
Þetta kallar maður að elska Davíð.
Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 22:26
Sæl Jónína. Ekki finnst mér ég vera að tjá neinum ást mína í þessari færslu, heldur að setja þarna inn upplýsingar sem ég hef lesið mér til um og finnst rétt að setja fram í stuttu máli. Sé hægt að lesa einhverja tilfinningu úr þessu í garð Davíðs, þá er það ótti samstarfsmanna hans við hann.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 24.1.2010 kl. 22:33
Sæl Hólmfríður
Ég þakka þér fyrir að lesa ræðuna og vitna í hana. Fyrst og fremst er ég auðvitað illur út í þessa bankamafíu og þá glæpamenn alla sem fyrir löngu ættu að vera komnir í steininn. Það er númer eitt.
Ég er hins vegar líka dálítið pirraður út í aðgerðaleysi stjórnvalda og að gengið skuli svo freklega á bak þeirra loforða sem gefin voru fyrir kosningar í fyrra. Væntanlega er ekki öfundsvert að sitja í ríkisstjórn þessa dagana en mér finnst áherslurnar rangar og hægagangurinn gríðarlegur. Núna í mars eru mörg þúsund eignir á leið á nauðungarsölu vegna skuldahækkana sem ekki nokkur maður getur ráðið við. Bönkum og lánastofnunum er gefið veiðileyfi á þegna landsins sem er alveg út í hött.
Ég sé ekki að nokkur maður græði á því að bankarnir eigi mörg þúsund fasteignir, sérstaklega ekki ef þeir eru að selja þær vinum og vandamönnum 'undir borðið' eins og sterklega hefur verið ýjað að í fjölmiðlum og er vafalaust rétt.
Annars á ég ekkert að vera að væla, ég hef tök á því að fara héðan. Ekki eru allir svo lánsamir. En þungamiðjan í mínum málflutningi er að mér finnst ansi kynlegt að menn á borð við fyrrum bankastjóra Landsbankans gangi lausir. Ég hef áður líkt þessu við mál Bernards Madoff og geri það enn. Hann fékk 150 ára dóm fyrir að svíkja fjölda manns um sparifé þeirra. Ég efast um að heildarupphæðin í hans máli nái upp í Icesave þótt ég viti það ekki með vissu.
Kærar kveðjur norður á Hvammstanga,
Atli Steinn
Atli Steinn (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 22:40
Ég skil vel reiði Atla Steins og tek undir með honum. Hólmfríður er það ekki í verkahring stjórnvalda að hafa hemil á banksterunum og verja þegnana fyrir skefjalausri græðgi bankastofnana og starfsmanna þeirra sem ekki kunna að skammast sín. Því miður er það svo að sá ráðherra sem er með mál skuldugra heimila á sinni könnu hefur meiri áhuga á að þóknast bankavinum sínum en að koma skuldurum þessa skers til hjálpar.
Hólmfríður því miður er sópur Jóhönnu hárlaus með öllu og hún er orðin þreytt, já svona álíka þreytt og aðalsamningamaðurinn okkar sælla minninga. Svoleiðis fólk gerir ekkert gagn.
Það þarf nýja hugsun, það verður að setja almenna borgara í fyrsta sætið og banksterana í baksætið, það verður að láta fólk sem ekki getur staðið við sterabólgin og ólögleg gjaldeyris lánin og vaxtaokurslánin íslensku njóta vafans. Það þarf að hreinsa út úr embættismannakerfinu, dómskerfinu og pólitíkinni.
En það er ekki í forgang hjá núverandi stjórnvöldum að gera neitt að þessu og það er pottþétt að það er ekki heldur í forgang hjá stjórnarandstöðunni.
Ég held svei mér þá að ég fylgi Atla Stein út hinn stóra heim, ekki að ég haldi að spillingin sé eitthvað minni þar heldur vegna þess að mér er algerlega nóg boðið. Enda kemur sjálfsagt að því að maður fer með lyklana af bílnum í Glæpafyrirtæki Bakkavararbræðra og húslyklana í bankann sem einhver bévítans vogunarsjóður í útlandinu á núna og segir þeim að troða þeim þar sem sólin skín ekki.
Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 23:58
Sæll Atli Steinn Takk fyrir að skrifa hér málefnalega athugasemd við færsluna mína.
Þessa athugasemd setti ég inn á síðuna hjá MGN við ræðuna þina nú áðan ásamt svörum við öðru sem til mín var beint.
"Þær aðgerðir sem félagsmálaráðherra hefur sett fram til hjálpar heimilunum í landinu hafa verið gagnrýndar og það með réttu. Þær ganga of skammt og eru of flóknar. Það hefur verið skýrt með því að fjármálastofnir hafi haft of mikið um það að segja hvernig málinu var stillt upp. Þetta hefur meðal annars verið gagnrýnt af talsmönnum Hagsmunasamtaka heimilanna og það með réttu."
Þessi málaflokkur finnst mér hafa orðið alvarlega útundan hjá þeirri ríkisstjórn sem nú situr (tek það fram að ég er flokksbundin í Samfylkingunni). Þú segir réttilega að starf í ríkisstjórninni sé ekki öfundsvert og það er örugglega mjög strembið á margann hátt.
ICESAVE málið hefur tafði margt í uppbyggingunni, en á þó ekki að mínu mati að koma í veg fyrir að gera bragarbót á þessu stóra máli með heimilin í landinu. Það á að vera mikið forgangsmál og vonandi mun þessi vinnuhópur sem ÁPÁ skipaði nýverið og MGN á sæti í, koma þessum málum á hreyfingu
Það er hreint með ólíkindum að lesa um Vafningamálið og Sjóvá í DV. Að formaður í stórum stjórnmálaflokki sé viðriðinn málið segir margt um ákafa þess sama að þyrla upp sem mestu ryki á öðrum stöðum.
Gangi ykkur allt í haginn í Noregi. Eldri dóttir okkar hefur búið þar í 20 ár og eldri sonur okkar er að vinna þar sem stendur hjá Ístak hf. Ekki kæmi mér á óvart þó hann og fjölskyldan mundu setjast þar að um tíma að minnsta kosti.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 25.1.2010 kl. 00:02
Einhver staðar hef ég heyrt að það sem tungunni er tamast sé hjartanu kærast og þú ert búin að nefna nafnið DO í annarri hverri færslu uppá síðkastið.
Annars er ég sammála síðasta ræðumanni Jóhanna er orðin gömul og þreytt og ætti að fara að hætta þessu. Hennar tími er liðinn.
Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 25.1.2010 kl. 00:06
Sæll Sigurður. Ég sagði aldrei að ég skildi ekki reiði Atla Steins. Varðandi vanda heimilanna vísa ég í færsluna hér að ofan. Ég held að þín ályktun með kústinn hennar Jóhönnu sé ekki rétt. Vona að þú sjáir þér fært að vera um kyrrt, en skil vel að fólk velji þá leið að flytja úr landi.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 25.1.2010 kl. 00:09
Sæl Jónína. Því miður (sem betur fer) er þín ágiskum varðandi Davíð ekki rétt. Jóhanna er auðvitað fullorðin, en hún er það reynd og dugleg að við viljum endilega hafa hana enn um sinn. Ef hennar tími hefur einhverntíma verið þá er það núna.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 25.1.2010 kl. 00:14
Hvernig getur þú reynt að taka flokkinn þinn út fyrir sviga og klínt öllu á xD glæpaflokkinn ??
D flokkurinn er sekur sem syndin, ekki spurning, en telur þú þá sá einu sem selt hafa æru sína ??
Þinn flokkur er rauður upp að öxlum í sora, ekki gleyma því !
Það er enginn flokkur flekklaus á Íslandi í dag.
Hvers vegna virðist það vera fyrirmunað hjá vinstri hópnum að fordæma glæpi/afglöp sinna manna ??
Aldrei skal gleyma að það er AÐEINS glæpurinn sem ber að fordæma, ekki lögheimili gerandans !
Ef að við snúum ætíð blinda auganu að glæpum okkar manna eða afsökum þá með sambærilegum sora framkvæmdum af hinum flokknum, þá verður ALDREI réttlæti eða sátt í þjóðfélaginu !
runar (IP-tala skráð) 25.1.2010 kl. 00:47
Sæll Rúnar.Þú átt væntanlega við að Samfylkingin sat í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum síðustu mánuðina fyrir hrun, í hruninu og síðan eftir hrun, þar til fyrir einu ári. Vissulega er það rétt og þar hefði vissulega þurft að vera meira aðhald af hálfu þess flokks. Tek fyllileg undir með þér með lögheimili geranda í þessu stóra máli eiga ekki að verða skotspónn spellvirkja.
Ég álít að Sjálfstæðis og Framsóknarflokkar beri höfuðábyrgð á hruninu og rökstyð það með því að grunninn megi rekja til aðgerða þessara flokka nokkur ár eða jafnvel áratugi aftur í tímann. Það firrir ekki aðra stjórnmálaflokka ábyrgð, en hlýtur að gera þeirra hlut mun minni.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 25.1.2010 kl. 02:14
Ræða Atla Steins var einlæg og heiðarleg, það þarf kjark til að viðurkenna þau mistök að hafa verið plataður í kosningum og stíga upp úr skotgröfunum. Hinn ræðumaðurinn á Austurvelli á laugardaginn var hagfræðingurinn Jóhannes Björn Lúðvíksson. Ég skora á fótgönguliða í skotgröfum fjórflokksins að kynna sér þá ræðu hún fer hér á eftir.
Það er deginum ljósara að pólitíska yfirstéttin og peningaelítan sem stýrir fjórflokknum tóku snemma hruns þá ákvörðun að fórna skuldsettum heimilum landsins. Þetta var gert á meðan skjaldborg var slegin um fjármagnseigendur og glæpaliðið sem setti landið á hausinn.
Flest bendir til þess að ráðamenn hafi ákveðið að draga almenning á asnaeyrunum með því að þæfa málið sem lengst—gefa út yfirlýsingar sem veittu fólki tímabundna von, en reyndust við nánari athugun ekkert annað en lengri hengingaról.
Við skulum hafa eitt grundvallaratriði á hreinu: Myntkörfulán, borguð út í íslenskum krónum, eru algjörlega ólögleg og verðtryggð lán eru bæði siðlaus og standast heldur ekki lög um eðlilega viðskiptahætti. Einstaklingar sem hafa verið flæktir í þetta skuldanet og óska nú leiðréttingar eru því ekki að biðja um ölmusu eða sérstaka fyrirgreiðslu—þeir eru einfaldlega að krefjast þess að lögum landsins sé framfylgt. Spurningin snýst raunverulega um hvort við búum í réttarríki eða bananalýðveldi.
Lög nr. 38 frá 2001 eru skýr. Gjaldeyristryggð lán eru ólögleg. En jafnvel þótt þessi lög væru ekki fyrir hendi þá gerði gjaldeyrisbrask bankanna 2008 verðtryggðu lánin marklaus. Í stuttu máli þá tóku bankarnir stöðu á móti viðskiptavinum sínum þegar þeir snarfelldu gengi íslensku krónunnar. Þeir græddu því bæði á fallandi gengi og hækkun allra gengistryggðra og verðtryggðra lána. Þetta voru ekki eðlileg bankaviðskipti heldur glæpastarfsemi og margur hefur verið settur í járn fyrir minna.
Í 36. grein laga nr. 7 frá 1936 segir orðrétt:
Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig …
Síðan segir í þessum sömu lögum:
Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag.”
Lögin eru skýr og nýlegur dómur sem féll lánafyrirtæki í vil í Héraðsdómi Reykjavíkur sýnir okkur aðeins að samtrygging valdsins hefur náð óþolandi stigi og réttarfar á Íslandi á enga samleið með kerfi landa sem við viljum bera okkur saman við. Orðið “bananalýðveldi” kemur aftur upp í hugann … en við hverju er að búast í landi þar sem þjónar dómsvaldsins eru án undantekninga valdir samkvæmt pólitískri forskrift?
Verðtrygging lána er eitthvert mesta glapræði seinni tíma. Á áratugunum fyrir 1980 ríkti algjör óstjórn á íslenskum fjármálamarkaði. Verðbólgan æddi áfram og ráðamenn annað hvort skildu ekki hvað var að gerast eða vildu ekki skilja það. Í staðinn fyrir að beita raunhæfum lausnum, t.d. draga úr útlánum bankanna með hærri bindiskyldu, þá var kerfið sett á sjálfstýringu með verðtryggingunni. Þetta var taktísk viðurkenning valdamanna á þeirri staðreynd að þeir kunnu ekki að stjórna hagkerfinu.
Verðtryggingin er ólögleg að því leyti að hún er ekki í anda eðlilegra viðskiptahátta. Hvernig getur það staðist að aðeins annar aðilinn taki alla áhættu af öllu sem kann að fara úrskeiðis í framtíðinni? Þegar bakakerfið bauð fólki verðtryggð lán á árunum fyrir 2008 lögðu “sérfræðingar” bankanna fram greiðsluáætlanir sem hljóðuðu upp á 3–5% verðbólgu næstu árin. Þetta ógildir skilmála verðtryggðra lána vegna þess að lög um trúnað og tillitskyldu við samningagerð segja að það sé óheimilt að bera fyrir samning vegna atvika sem voru til staðar og ekki eiga lengur við.
Sú staðreynd að bankakerfið sjálft rústaði landinu og keyrði gengið niður úr öllu valdi með viðeigandi verðbólguskoti tekur af allan vafa um lögmæti verðtryggðra samninga.
Í stuttu máli: Bankakerfið eyðilagði hagkerfið og ber fulla ábyrgð á því að verðtryggð lán hafa stórhækkað og gjaldeyristryggð lán jafnvel tvöfaldast. Og nú sparkar kerfið í liggjandi mann og heimtar að fólk ekki aðeins borgi okrið, heldur haldi áfram að borga af lánum af húsnæði og bílum sem það er búið að missa. Þetta er einhver hroðalegasta ósvífni allra tíma. Það er algjör lágmarkskrafa að fólk sem gengur frá ofurskuldsettum eignum sé þar með laust allra mála. Þingmenn sem standa í vegi fyrir þessari breytingu eru með frosin hjörtu og ekki mannlegar verur í þeim skilningi er við leggjum í það hugtak.
Elítan sem hefur hreiðrað um sig í skjaldborginni og sett fólkið út á gaddinn kemst upp með myrkraverk sín í skjóli leynimakks og pukurs sem lengi hefur viljað loða við íslenska stjórnsýslu. Þótt tugþúsundir Íslendinga hafi verið gerðir eignalausir þá heldur leynimakkið áfram. Hvar eru nákvæmir listar yfir alla pólitíkusa sem fengu kúlulán og aðra óeðlilega fyrirgreiðslu frá glæpagenginu sem setti landið á hausinn? Hvers vegna fær fólkið sem verður að borga fyrir glæpinn ekki nákvæmar upplýsingar um hvað bankarnir eru að afskrifa?
Íslenskir stjórnmálamenn hafa tilhneigingu til að hegða sér eins og danskir embættismenn í kringum aldamótin 1900. Sem stétt eru þeir andlýðræðislegir og hrokafullir. Þeir hika ekki við að halda mikilvægustu upplýsingum frá fólkinu. Raforkuverð til erlendra fyrirtækja—atriði sem varðar alla framtíðaruppbyggingu landsins—er t.d. leyndarmál. Gamlir samningar við Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem mótuðu atvinnustefnuna í marga áratugi, eru líka leyndarmál. Munið að ríkisstjórnin vildi upphaflega að Alþingismenn samþykktu Icesave-samninginn án þess að lesa hann! Allt annað er í sama dúr.
Hér verður mikið að breytast ef mönnum er full alvara í þeim ásetningi að endurreisa landið. Gamla launhyggjan verður að hverfa og það verður að hrista duglega upp í embættismannakerfinu. Valið er einfalt: Annað hvort verður hér gjörbreytt kerfi þar sem nýir kústar sópa spillingunni út … eða hálfgerð skálmöld, stórskert lífskjör almennings og gífurlegur landflótti. Það er búið að ganga eins nálægt réttlætisvitund fólks og mögulegt er.
Ef stjórnvöld halda áfram á sömu braut þá blasir allt annað og verra Ísland við okkur eftir nokkur ár. Okurvextir, óraunhæfar afborganir af erlendum skuldbindingum og atvinnuleysi eiga eftir að orsaka enn frekari gjaldþrot og flóknari erfiðleika. Þetta er óþolandi vítahringur og þróun sem strax ber að stöðva. Það verður að höggva á hnútinn. Afnema verðtryggingu lána, breyta gjaldeyrislánum í íslensk á því verði sem þau voru fyrir 15 mánuðum og stórlækka stýrivexti.
Okurvextir eru böl. Á meðan flest fyrirtæki á Vesturlöndum hafa aðgang að ódýrum peningum—og ekki veitir þeim af á þessum krepputímum—þá verða helsærð fyrirtæki á Íslandi að borga yfir þriðjung veltunnar í vexti. Aðeins hagfræðingum á framfæri ríkisins dytti til hugar að verja slíka sjálfsvígsstefnu.
Dæmið væri kannski skiljanlegt ef hér væri verið að reyna eitthvað hagfræðibrölt í fyrsta skipti, en margra ára og áratuga reynsla hefur sýnt okkur að vaxtaokrið virkar ekki. Okurvextir kynda undir verðbólgu í litlu hagkerfi vegna þess að innlend verðsamkeppni er allt of lítil. Okurvextir styrkja heldur ekki gjaldmiðilinn. Þeir láta umheiminn aðeins vita að hér bjátar eitthvað hræðilega mikið á.
Fimmtán mánuðum eftir að nokkrir glæpamenn—með hjálp pólitísku yfirstéttarinnar—rústuðu lífi tugþúsunda íslendinga, setti Saksóknari Ríkisins allt í gang og kærði nokkur ungmenni fyrir að ráðast inn í Alþingishúsið! Þetta er auðvitað eins og hver önnur martröð og henni fylgir ákveðin hætta. Þegar fólk þarf að berjast við vindmyllur—það glímir stöðugt við atburðarás sem gæti komið beint úr skáldsögu eftir Kafka—þá er stórhætta á að það missi móðinn. Það má aldrei gerast.
Við skulum hafa það hugfast að svo til allar framfarir sjá dagsins ljós þegar fólk vinnur bug á einhverjum erfiðleikum … og það er nánast náttúrulögmál að allt andstreymi skapar ný tækifæri. Eða eins og Shakespeare orðaði það: “Hve ljúft er að nota mótlætið sér í hag.”
Gömul kínversk saga segir frá bónda sem átti hest sem einn góðan veðurdag strauk af heiman. Þegar nágrannarnir komu til þess að votta honum samúð sína spurði bóndinn: “Hvernig vitið þið að þetta séu slæm tíðindi?” Nágrannarnir hristu hausinn og fóru, en næsta dag kom hesturinn til baka í fylgd með villtum hesti. Nú komu nágrannarnir til þess að óska bóndanum til hamingju með nýja hestinn, en hann leit á þá með undrun og spurði: “En hvernig vitið þið að ég hafi dottið í lukkupottinn?” Stuttu seinna var sonur bóndans að temja nýja hestinn og fótbrotnaði þegar hann kastaðist af baki. Aftur komu nágrannarnir til þess að votta samúð sína og aftur sagði bóndinn: “Hvernig vitið þið að þetta eigi eftir að koma sér illa?” Nágrannarnir kvöddu bóndann orðlausir … en næsta dag kom stríðsherra í héraðið og smalaði saman öllum heilbrigðum ungum mönnum og sendi út á vígvöllinn.
Góðir fundargestir. Bankahrunið gefur okkur gullið tækifæri til þess að skapa hér betra samfélag. Við höfum allt of lengi búið við forhert framkvæmdavald, grútmáttlaust Alþingi og rammpólitískt dómsvald. Ef við stöndum þétt saman þá missir klíkustéttin heljartakið sem hún hefur á kerfinu og við uppskerum betra þjóðfélag … réttlátara þjóðfélag … land sem við getum öll verið stolt af.
Magnús Sigurðsson, 25.1.2010 kl. 11:31
Sæll Magnús. Það er ekki af neinni hvöt til að verja einhverjar misgjörðir fortíðar sem ég hef gengið til liðs við Samfylkinguna, heldur vegna þess að ég treysti henni einna best til að koma okkur yfir fenið stóra. Ég hef í gegnum árin tekið þátt í að koma fram því sem ég hef talið vera til bóta í samfélaginu.
Eitt hef ég lært og það eftir beiska reynslu og það er að ef ég eða þú villt hafa áhrif til breytinga á stjórnmálasviðinu, þá er frekast hægt að gera það í gegnum starfandi stjórnmálaöfl.
Samfylkingin er auðvitað ekki gallalaus frekar en annað í þessum heimi, en fyrir mig er hún það sem mér finnst komast næst mínum lífsviðhorfum.
Ræðan hans Atla Steins var einlæg og allt gott um það, en fyrir mig hefði ég viljað sjá þar minna af tilfinningum.
Ég get líka tekið af heilum hug undir með Jóhanni Birni Lúðvíkssyni. Peningamálastefnan hér álandi hefur veri helsjúk um áratuga skeið. Verðtryggingin á níunda áratugnum gerði okkur hjónin gjaldþrota og það var fyrsta "alvöru" gjaldþrotið sem Jón Ísberg þá verandi sýslumaður Húnvetninga fékkst viðá sínum ferli. Þetta sagði hann sjálfur og meinti að þarna væri hann í fyrsta skipti að gera fjölskyldu upp þar sem eignir væru í búi.
Fram undir þennan dag höfum við hjónin verið að greiða upp eftirhreytur af þessu gjaldþroti.
Ég vil verðtrygginguna burt, lækkun vaxta og stöðugan gjaldmiðil. Það er ástæða þess að ég vil freista þess að ganga til liðs við Evrópulönd og fá evruna hingað. Það er engin töfralausn, en að mínu áliti skárri kostur en okkar staða í dag. Ég sé ekki ástæðu til þess að gera frekari tilrauna með okkar gjörónýta gjaldmiðil. Gengistryggðu lánin eru mikill og stór klafi sem verður að aflétta með öllu.
Heimilin í landinu hafa orðið mjög illa úti í hruninu og þá sýnu verst á suðvestur horninu sýnist mér. Ég er afar ósátt við aðgerðir eða öllu heldur aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í þeim málaflokki. Hagsmunasamtök heimilanna er afar gott framtaka grasrótarinnar til að vekja athygli á þessum málaflokk og þar á bæ hefur verið unnið að mínu áliti afar faglega og skipulega að því að koma skoðunum og úrlausnum á framfæri. HH eru samtök sem ég hef frá upphafi stutt og gekk til liðs við þau strax í jan 2009.
Gagnrýni JBL á stjórnarhætti hér eru réttmæt og þar kemur stjórnarskráin danska til sögunnar. Ég hef um langt skeið verið talsmaður þess að endurskoðun hennar væri brýn.
Niðurstað mín er sú að það sé betra að berjast með því liði sem manni líkar einna best og hefur ítök í stjórnun landsins, en að fara í skærur sem geta í raun farið hvert sem er.
Ég varaði bloggvini mína við því fyrir síðustu kosningar að bjóða fram og taldi betra að fara leið HH.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 25.1.2010 kl. 13:50
Betra samfélag vil ég svo sannarlega skapa og það er líka ástæða þess að ég er í Samfylkingunni. Þar finn ég mest af þeim grunngildum sem þjóðfélagið þarfnast.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 25.1.2010 kl. 13:53
Hver á að borga tap þeirra sem tóku lánin og töpuðu i hruninu. Skattgreiðendur? svo verður allt vitlaust ef vinstri stjórnin hækkar skattana. Þetta er ekki einfallt mál.
Þórdís Bára Hannesdóttir, 25.1.2010 kl. 14:34
Sæl Þórdís Bára. Þetta er ekki einfalt mál og svo langt frá því. Við vitum ekki enn hvort okkur tekst að ná einhverju til baka af öllu því fé sem hlýtur að hafa verið flutt úr landi á þessum tíma og getur af dómstólum vera fengið með ólögmættum hætta.
Ábyrgð samfélagins gagnvart heimilunum í landinu er líka mikil og verði ekki brygðist við með raunhæfum lausnum sem létta raunverulega greiðslubyrgðum af fólki, þá er ég hrædd um að margir fari að dæmi Atla Steins og flytji úr landi.
Það hlýtur að vera enn meiri blóðtaka fyrir samfélagið heldur en skuldaniðurfelling, þó hún sé vissulega dýr. Þarna verður að finna millileið sem fólk getur látið sé linda. Það verður aldrei hægt að gera allt fyrir alla, en við verðum að gera meira fyrir þá sem hafa möguleika og síðan sérlausnir fyrir hina.
Bendi á umsagnir frá ASG um þessi mál þar sem bent er á að svigrúm bankana sé meira en þeir hafa nýtt.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 25.1.2010 kl. 17:16
"Spyrjið fjárglæframennina um skjaldborgina" segir þú...Væri ekki nær að spyrja Jóhönnu um skjaldborgina sem hún lofaði út í eitt.
Hún og hennar fólk hefur ekki gert neitt...ekki neitt.
Halla Rut , 25.1.2010 kl. 22:03
Sæl Halla Rut. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir hefur náð að koma mögum góðum málum af stað, en auðvitað hefur ICESAVE (hvað sem okkur finnst um það) tekið alltof mikinn tíma.
Heimilin í landinu hafa orðið mjög illa úti í hruninu og þá sýnu verst á suðvestur horninu sýnist mér. Ég er afar ósátt við aðgerðir eða öllu heldur aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í þeim málaflokki.
Hvað ég átti við með að spyrja fjárglæfra mennina um skjaldborgina. Ekki alveg rétt hjá mér að orða þetta svona. Heldur að réttast væri að spyrja bankastofnanir og þá sem settu aðgerðapakkann saman með fulltrúum félagsmálaráðherra um skjaldborgina. Það er mín skoðun að lánastofnanirnar hafi lagt línurnar og gert úrræðin þannig úr garði að þau virtust lækka skuldina, en á þvímun vera mikill misbrestur.
Það voru svokallaðir stóreignamenn sem spiluðu með fé þjóðarinnar. Þeir fengu líka innistæður sínar í bönkunum tryggðar að fullu við fall bankanna. Eðlilegra hefði verið að nota eitthvað af því fé sem greitt var inni bankana vegna innistæðna - til að koma til móts við fólk sem átti sitt fé í húseignum.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 25.1.2010 kl. 23:45
Hér er listi yfir það sem ávanst á árinu 2009 þrátt fyrir allt sem á gékk.
Staðan um áramót
Svo kom 5. janúar 2010.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 25.1.2010 kl. 23:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.